Unnið að styrkingu innviða

Á árunum 2009 til 2017 fjölgaði umsóknum um alþjóðlega vernd …
Á árunum 2009 til 2017 fjölgaði umsóknum um alþjóðlega vernd úr 35 í 1096 sem er 32 földun. mbl.is/Hari

Dómsmálaráðherra hefur stigið ákveðin skref í þá átt að auka skilvirkni hjá Útlendingastofnun og styrkja innviði stofnunarinnar. Þetta er gert með hliðsjón af nýlegri skýrslu ríkisendurskoðunar um Útlendingastofnun.

Í nýrri skýrslu ríkisendurskoðunar um Útlendingastofnun kemur fram að mikilvægt sé að bæta skilvirkni við afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd. Dómsmálaráðherra tekur undir að skilvirkari framkvæmd laga sé ávallt kostur, bæði þegar kemur að mannúð í málefnum útlendinga og ábyrgri nýtingu opinbers fjár.

Í skýrslunni er meðal annars lagt til að upplýsingakerfi stofnunarinnar verði bætt svo stytta megi enn frekar málsmeðferðartíma við afgreiðslu umsókna, þá veiti rafræn stjórnsýsla einnig betri upplýsingar sem dragi úr álagi á starfsfólk. Skoða ætti verklagsreglur og þörf á nýjum verklagsreglum til að auka málshraða og gæði afgreiðslu umsókna.

Dómsmálaráðherra hefur þegar tekið ákveðin skref svo bæta megi skilvirkni hjá Útlendingastofnun og hraða afgreiðslu umsókna til dæmis með breytingu á reglugerðum auk þess sem nú liggur fyrir frumvarp á Alþingi sem m.a. er ætla að tryggja skilvirkari málavinnslu. Þá er unnið að frekari endurskoðun á lögunum sem taka skal mið af því að auka skilvirkni.

Ríkisendurskoðun fjallar einnig um mikilvægi raunsærrar áætlunargerðar í skýrslu sinni og að hún byggist á hlutlægum upplýsingum og styðjist við mælanleg markmið. Dómsmálaráðherra hefur þegar hafið vinnu við að styrkja innviði Útlendingastofnunar með það að markmiði að meiri stöðugleiki færist yfir starfsemina ásamt því að hafa endurskoðað markmið í fjármálaáætlun um málsmeðferðartíma til að gera þau ítarlegri og raunhæfari, segir á vef dómsmálaráðuneytisins.

Stefnt að málsmeðferð taki 150 daga

„Á árunum 2009 til 2017 fjölgaði umsóknum um alþjóðlega vernd úr 35 í 1096 sem er 32 földun og handhöfum dvalarleyfis fjölgaði úr 1.851 í 4.326 eða um 134%. Mikill árangur hefur hins vegar náðst í að stemma stigu við umsóknum frá öruggum ríkjum og hefur hlutfall þeirra af heildarfjölda umsókna fallið úr um 80% árið 2016 í um 10% árið 2018. Framlög ríkisins til málaflokksins jukust tæplega 18 falt frá 2009 til 2017.

Þá hefur nokkur árangur náðst við styttingu málsmeðferðartíma hjá Útlendingastofnun. Málsmeðferðartími vegna umsókna um alþjóðlega vernd styttist úr 174 dögum árið 2009 í 121 dag árið 2017. Ný markmið um málsmeðferðartíma hafa verið sett fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023, þ.e. að árið 2019 taki efnismeðferðarmál 150 daga, Dyflinnarmál 40-90 daga og forgangsmál 3-14 daga og að árið 2023 verið efnismeðferðarmál komin niður í 70 daga, Dyflinnarmál í 40 daga og forgangsmálin í 3 daga.

Dómsmálaráðherra mun hafa skýrslu ríkisendurskoðunar til hliðsjónar við áframhaldandi þróun í málaflokknum svo áfram megi afgreiða umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hratt og örugglega í samræmi við gildandi lög, með mannúð að leiðarljósi,“ segir á vef dómsmálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert