Var bundinn niður af áhöfn vélarinnar

Maðurinn var færður í handjárn við komuna til landsins.
Maðurinn var færður í handjárn við komuna til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskað var eftir aðstoð flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum nú í vikunni er flugvél var að koma inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli með flugfarþega sem hafði látið öllum illum látum um borð í vélinni, sem var á leiðinni frá Detroit. 

Hafði maðurinn hagað sér með þeim hætti að áhöfnin sá sér ekki annað fært en að binda hann niður í sætið. Segir í dagbók lögreglu að maðurinn hafi verið með ógnandi og dónalega framkomu og hafi neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum um að setjast niður.

Við komuna til landsins handtók lögregla manninn  og færði hann í handjárn um borð í vélinni, áður en hann var fluttur á lögreglustöðina. Var maðurinn  í annarlegu ástandi og því ekki hægt að birta honum upplýsingablað fyrir handtekna.

Stutt er síðan ölvaður maður veittist að öryggisvörðum og áreitti starfsfólk í innritun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að honum hafði verið meinað að fara í flug sökum ölvunarástands. Var sá maður  einnig handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert