Viðbrögðin jafn vitlaus og ummælin

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkssaksóknari segir skaðlegt að sínu viti að …
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkssaksóknari segir skaðlegt að sínu viti að láta einhvern hóp ráða umræðunni í hvert skipti sem eitthvert mál kemur upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari virðist taka undir með pistli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birtir á vef sínum í dag þar sem velt er upp hver viðbrögð af Klaust­ur­mál­inu hefðu verið ef ann­ar flokk­ur en Miðflokk­ur­inn ætti í hlut.

Í pistl­in­um, sem Sigmundur birti en skrifaði ekki og ber titil­inn Er sama hver er? er Miðflokkn­um og Flokki fólks­ins skipt út fyr­ir Sam­fylk­ing­una og Vinstri græna og dregnar fram tvær mismunandi atburðarrásir af því hvernig Klaustursmálið hefði getað þróast við þær aðstæður. Er í síðara tilfellinu lögð áhersla á þá reglu að mann­rétt­indi fólks séu ekki brot­in með per­són­unjósn­um og að jafnræðis verði að gæta.

„Ég held að þetta sé rétt. Það er lítill hópur af vinstri mönnum sem virðist telja að þeir séu dómarar um hvað sé siðferðilega rétt. Þeir virðast telja að þeir í nafni PC [e. political correctness] geti hrópa niður þá sem eru þeim ósammála,“ segir Helgi Magnús í færslu á Facebook-síðu sinni. Þessi hópur virðist telja  sig geta úthrópað fólk sem rasista eða annað neyti það réttar síns til tjáningarfrelsis um viðkvæm málefni.“ Segir Helgi Magnús í færslunni að þetta sé fólk sem skapi þá mestu hættu sem steðji að lýðræði á Íslandi. „Vegna þess að tjáningarfrelsið er undirstaða alls góðs sem við eigum í dag og allra framfara í framtíðinni.“

Gapuxar eigin pólitísks rétttrúnaðar sem þarna hafi sig í frammi séu ekki mikils virði ef þjóðin láti þá ekki stjórna sér. Þeir hafa einfaldlega fundið leið til að koma eigin pólitísku skoðunum í þennan búning til að tala niður andstæðinga sína án gagnrýni. „Því miður hefur verulegur hluti háskólasamfélagsins hoppað á þennan vagn,“ segir í færslunni. „Þetta fólk er ekkert meira en hræsnarar sem enginn ætti að virða viðlits.“

Þurfum að gæta jafnræðis

„Ég vil taka það fram að þetta hefur ekkert með mínar stjórnmálaskoðanir að gera,“ segir Helgi Magnús í samtali við mbl.is um færslu sína. Umræðan undanfarið hafi hins vegar sýnt að það sé ekki sama Jón og séra Jón.

„Það þarf ekkert að fara á milli mála að ég er ekkert að samsama mig þessum ummælum. Það eru allir búnir að fordæma þessa vitleysu,“ segir hann og bætir við að afgreiða hefði mátt Klausturummælin á einum degi sem ósæmileg og óþolandi. „Það sem er merkilegt við þetta er að viðbrögðin eru nánast jafn vitlaus og þessi ummæli.“  Eins sé galið að ætla öðrum sem þarna voru að bera ábyrgð á því sem hinir sögðu. Hefðu samræðurnar ekki verið teknar upp þá hefðu þessi ummæli, líkt og þeim var ætlað, dottið niður dauð. Með upptökunni séu þeim hins vegar gefnir vængir.

„Menn segja að þetta eiga erindi við almenning af því þá vitum við hvernig menn þetta eru og allt í lagi við vitum þá hvernig þeir eru þegar þeir eru búnir að drekka mikið áfengi. Við þurfum hins vegar að passa okkur á því að gæta jafnræðis og getum ekki leyft einhverjum að dæma fólk opinberlega á misjafnan hátt eftir því í hvaða stjórnmálaflokki það er.“

Helgi Magnús kveðst ekki ætla að fara að gera Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinar, neitt upp en engu að síður verði að sýna eitthvert umburðarlyndi.

„Flestir hafa einhvers staðar í tveggja eða þriggja manna tali rausað upp einhverju sem þeir vilja ekki að fari lengra og það er fínt að fordæma þetta. Svona eigum við ekki að tala og við verðum að læra af því, en við verðum líka að geta sagt að mönnum verði á,“ segir hann.

Hanga á þessu máli eins og hundur á roði

Viðbrögðin hafi af sínu viti hins vegar svolítið pólitísk. „Menn sjá þarna færi til að koma höggi á pólitískan andstæðing og það ýkir viðbrögðin. Það verður til þess að menn nýta þetta út í eitt.“ Sjálfur myndi hann frekar  kjósa að þetta ágæta fólk sem treyst sé fyrir stjórn landsins nýtti krafta sína betur í þágu þjóðar og lands, „frekar en að hanga á þessu máli eins og hundur á roði og mjólka það út í eitt“.

Það sé skaðlegt að sínu viti að láta einhvern hóp ráða umræðunni í hvert skipti sem eitthvert mál kemur upp. „Við erum á vondum stað ef við leyfum þeim að velja úr það sem þeim hentar að úthrópa og láta annað liggja kjurt og vera skítsama um allt jafnræði. Þá erum við búin að láta einhver hóp stjórna umræðunni og ákveða hverjir séu góðir, hverjir slæmir og hvað sé ásættanlegt og það er bara skaðlegt að mínu viti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert