Vaðlaheiðargöng opnuð fyrir umferð

Vaðlaheiðargöng eru opin og verða gjaldfrjáls til 2. janúar en frá þessu er greint á vefsíðu Vegagerðarinnar. Öllum öryggisprófunum lauk í dag og voru þau opnuð fyrir umferð klukkan 18:00.

Síðustu öryggisprófanir fóru fram fyrr í dag.
Síðustu öryggisprófanir fóru fram fyrr í dag. mbl.is/Þorgeir

Greint er frá því á Facebook-síðu Vaðlaheiðarganga að unnið hafi verið að þessu hörðum höndum undanfarna sólarhringa. Sérstök viðbragðsæfing slökkviliðsins á Akureyri, slökkviliðsins í Þingeyjasveit og Neyðarlínunnar fór fram í göngunum í dag og tókst hún samkvæmt áætlun að sögn Gunnars Rúnars Ólafssonar, varaslökkviliðsstjóra hjá slökkviliði Akureyrar. 

„Við líktum eftir umferðarslysi í miðjum göngum, þar sem tveir bílar skullu saman og eldur kom upp í öðrum bíl. Megin ástæðan fyrir æfingunni var samskipti milli Vegagerðar og Neyðarlínu sem stjórna neyðarbúnaði göngunum. Þetta gekk allt saman mjög vel og við gerðum lokaúttekt á göngunum og gáfum svo leyfi fyrir opnun ganganna út frá öryggissjónarmiðum,“ Gunnar. 

Fleiri verkefni fylgja opnun ganganna hjá slökkviliðinu sem mun æfa reglulega í göngunum. „Við komum til með að æfa þarna reglulega í samstarfi við slökkviliðið í Þingeyjasveit og svo verður stór æfing á fjögurra ára fresti, samkvæmt lögum, þar sem allir viðbragðsaðilar koma saman og þá verður kveikt eldur í göngunum og alvöru æfing,“ segir Gunnar.  

Á Facebook-síðu Vaðlaheiðaganga segir enn fremur að það sé gleðilegt að geta gefið Norðlendingum og landsmönnum öllum þá jólagjöf að geta loksins ekið í gegnum göngin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert