Eyþór: Dagur þarf að sýna hvernig hann axlar ábyrgð

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að stofnanir borgarinnar hafi staðfest að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri beri ábyrgð á braggamálinu þar sem hann hafi skrifað undir eina samninginn vegna málsins og verið framkvæmdastjóri borgarinnar. Segir Eyþór Dag vera rúinn trausti og að hann þurfi að sýna, sem æðsti embættismaður borgarinnar, hvernig hann ætli að axla ábyrgð vegna málsins. Þetta kemur fram í færslu Eyþórs á Facebook-síðu hans.

Eyþór fer yfir málið í færslunni og vísar til tilkynningar Borgarskjalasafns um að lög hafi verið brotin varðandi skjalavörslu sem tengdist málinu.

Segir hann viðbrögð Dags vegna málsins vera léttvæg. „Í stað þess að axla ábyrgð þá segir borgarstjóri að hann „finni til ábyrgðar“ sem er ansi létt í hendi. Borgarstjórinn í Róm sagði af sér vegna tveggja milljóna krónu risnukostnaðar og þó eru ítölsk stjórnmál ekki hátt skrifuð.“

Dagur. B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur. B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Gagnrýnir hann einnig fulltrúa meirihlutaflokka í borgarstjórn og segir þögn þeirra vera ærandi.

Eyþór segir skýr fordæmi liggja fyrir um uppsagnir vegna framúrkeyrsluverkefna hjá borginni og vísar í mál Félagsbústaða frá því í október. Þá sagði framkvæmdastjóri félagsins af sér eftir að innri endurskoðun birti skýrslu um verkefni sem fór fram úr áætlun.

„Það er því ljóst að borgarstjóri er rúinn trausti og þarf að sýna sem æðsti embættismaður borgarinnar hvernig hann ætlar að axla sína ábyrgð. Það er hið eina rétta,“ segir Eyþór að lokum.

Bragginn frægi við Nauthólsvík.
Bragginn frægi við Nauthólsvík. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert