Óska starfskrafts með liðsforingjamenntun

Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir starfskrafti með liðsforingjamenntun.
Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir starfskrafti með liðsforingjamenntun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Utanríkisráðuneytið hefur auglýst eftir starfskrafti með liðsforingjamenntun frá viðurkenndum varnarmálaháskóla. Starfið sem um ræðir er staða borgaralegs varnarmálafulltrúa sem mun sinna störfum á sviði öryggis- og varnarmála. 

Helstu verkefni varnarmálafulltrúans eru skipulagning og framkvæmd varnaráætlana, varnaræfinga og varnarmannvirkja, upplýsinga- og gagnaöflun, greining, ritun minnisblaða, greinargerða og talpunkta, þátttaka í tvíhliða og marghliða samstarfi auk samstarfs við alþjóðastofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki og einstaklinga hérlendis og erlendis. 

Góður bakgrunnur á skrifstofu varnarmála

„Þetta er ekki nýtt af nálinni, það hefur verið starfandi varnarmálafulltrúi í ráðuneytinu frá árinu 1985. Þarna er um nýliðun að ræða, en ekki stefnubreytingu eða nýbreytni,“ segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Hann segir að í ráðuneytinu hafi áður verið starfsmenn sem hafi liðsforingjamenntun. 

„Þetta er talinn góður bakgrunnur á skrifstofu varnarmála þar sem fjallað er um þessi mál. Ísland ber ábyrgð á sínum vörnum í dag og þó að við séum herlaust ríki, þá skiptir máli að það sé góð þekking á málaflokknum innan ráðuneytisins,“ segir hann og ítrekar að um borgarlega stöðu sé að ræða.

Ítarlegar hæfnikröfur gerðar til umsækjenda

Ítarlegar hæfnikröfur eru gerðar til þeirra sem sækja um starfið, en auk skilyrðisins um liðsforingjamenntun er krafa að viðkomandi hafi gott vald á íslensku, ensku og frönsku. Góð tjáningarfærni í ræðu og riti er einnig skilyrði. Þá er gerð krafa um gott tölvulæsi auk þess sem þekking og reynsla á starfi alþjóðlegs hermálastarfsliðs og herstjórna er skilyrði. Þá er staðgóð þekking og yfirsýn yfir öryggis- og varnarmál Íslands skilyrði.

Einnig eru í auglýsingunni taldir upp góðir kostir á borð við reynslu og þekkingu innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, reynslu og þekkingu á starfi Friðargæslu Íslands og góð kunnátta í öðrum tungumálum.

Spurður hvort það sé ekki mjög takmarkaður hópur manna sem komi til greina í starfið kveðst Sveinn ekki þekkja til þess. „Ég hef enga vitneskju um það hve margir geta komið til greina,“ segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert