Vörður kallar eftir afsögn Dags

Bragginn í Nauthólsvík.
Bragginn í Nauthólsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hvetur Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, til að axla fulla ábyrgð á braggamálinu svokallaða og segja af sér embætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fulltrúaráðinu, en þar segir jafnframt að „innantóm loforð um bætta stjórnunarhætti eða skipan nýrra starfshópa duga hreinlega ekki í kjölfar þess áfellisdóms sem skýrsla innri endurskoðunar svo sannarlega er.

Segir framkvæmdaráðið að fyrir liggi að brotið var gegn innkaupareglum Reykjavíkurborgar, undanþáguheimilda innkauparáðs var ekki aflað og að borgin hafi eytt mikilvægum gögnum í tengslum við málið. „Slík vinnubrögð eru ekki íslensku stjórnvaldi til sóma,“ segir í tilkynningunni.

Telur ráðið það vera lágmarkskröfu að borgarstjóri axli ábyrgð sem æðsti yfirmaður borgarinnar og stígi til hliðar.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hafa báðar krafist þess að borgarstjóri segi af sér. Þá var í bókun Flokks fólksins spurt hvort einhver ætlaði að axla ábyrgð vegna málsins. 

Þá sagði Hild­ur Björns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks, að hún vildi að borgarstjóri myndi víkja úr þriggja manna hópi sem skipaður var á fimmtu­dag til að rýna niður­stöður skýrslu Innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um Bragga­málið svo­nefnda. Ætlaði hún sjálf að víkja úr hópnum myndi Dagur ekki víkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert