„Bílskúrshurðin var í molum úti á plani“

Viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn.
Viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn. mbl.is/Eggert

Sprenging varð í bílskúr í Holtagerði í Kópavogi klukkan um klukkan 16 í dag. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var sprengingin kröftug og olli miklum skemmdum á bílskúrnum sem og á íbúðarhúsinu. Engin slys urðu á fólki.

„Bílskúrshurðin var í molum úti á plani,“ Jóhann Viggó Jónsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, í samtali við mbl.is. Einn var í bílskúrnum og var hann að gera við sportbíl. Að sögn Jóhanns hafði húsráðandi verið að reyna að gangsetja bílinn og líklega ekki gert sér grein fyrir því að loftið væri orðið bensínmettað þegar hann setti bílinn í gang. 

Tveir slökkviliðsbílar og þrír sjúkrabílar voru sendir á staðinn þegar útkall barst en annar slökkviliðsbílanna og tveir sjúkrabílar voru síðan afturkallaðir.

Talsverðar skemmdir urðu á íbúðarhúsnæðinu eftir sprenginguna, rúður brotnuðu sem og  milliveggur inn í barnaherbergi. Starf slökkviliðs á vettvangi fólst aðallega í því að tryggja að eldur leyndist ekki í rústunum.

Eigandi sportbílsins vildi ekki láta flytja sig á slysadeild en Jóhann segir að hann hafi verið með sviðið hár, en annars brattur. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert