Fór í aðgerð vegna hjartsláttartruflana

Gísli Marteinn á skurðborðinu.
Gísli Marteinn á skurðborðinu. Ljósmynd/Aðsend

Gísli Marteinn Baldursson lagðist undir hnífinn á árinu og lét frysta rafleiðslu við hjartað sem orsakaði hjartsláttarköst sem honum þóttu orðin þreytandi.

Þetta kemur fram í fréttabréfi sem Gísli Marteinn sendir vinum, vandamönnum og ókunnugum með reglulegu millibili, en mbl.is fékk góðfúslegt leyfi Gísla Marteins til þess að fjalla um efni bréfsins.

„Ég er með óreglulegan hjartslátt og hef verið með alla ævi,“ skrifar Gísli Marteinn. Þau trufla hann ekki mikið en einstaka sinnum fékk hann köst sem lýstu sér einhvern veginn svona:

„Hjartað hamaðist eins og ég væri að koma af leikvelli eftir að hafa náð 1-1 jafntefli við Argentínu og varið víti frá Messi. Sem ég gerði ekki á árinu.“

Honum þótti köstin orðin þreytandi og ákvað að treysta hjartalæknum sem sögðu ekkert mál að laga þetta. Hann lagðist því á skurðbekkinn þar sem vírar voru þræddir um nára og inn í hjartað og frystu rafleiðsluna sem orsakaði hamaganginn.

„Allt gekk vel, þessi köst eru hætt en hjartslátturinn er ennþá mjög óreglulegur enda átti aðgerðin ekkert að laga það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert