Keypti rótarskot og stjörnuljós

„Ég hef nú oft skotið upp flugeldum en mér finnst þetta mjög góður valkostur að geta stutt við starf björgunarsveitanna og um leið stutt við skógrækt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem var fyrsti viðskiptavinurinn til að kaupa Rótarskot í flugeldasölu björgunarsveitanna í morgun.

Hún keypti Rótarskotið á flugeldasölunni við Grandagarð 1 í morgun og verður því einn græðlingur settur í jörð við Þorlákhafnarsand. Þetta er í fyrsta skipti sem Björgunarsveitirnar bjóða upp á þennan möguleik sem Katrín segir kærkominn, enda höfum við verið minnt á það í gær hversu mikilvægar björgunarsveitirnar eru landsmönnum. Þá sé skógræktin eitt þeirra tækja sem nýtist til að fást við loftslagsbreytingar.

Skjótum rótum er átak sem Landsbjörg stendur að ásamt Skógræktarfélagi Íslands en einn græðlingur eru gróðursettur fyrir hvert rótarskot og standa vonir til að átakið muni skila myndarlegum skógi, sem mun heita Áramót, við Þorlákshafnarsand á næstu áratugum.

mbl.is var þar á dögunum og í myndskeiðinu fyrir neðan má sjá loftmyndir af svæðinu sem er bert og gróðursnautt í dag. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert