Ein verstu áramótin

Safnað á brennu árið 1976 við Ægisíðu.
Safnað á brennu árið 1976 við Ægisíðu. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

„Þúsundir ungmenna söfnuðust saman í miðbænum, stóðu fyrir íkveikjum og árásum, reyndu að velta bifreiðum, klifruðu upp nýbyggingar og köstuðu stórum heimatilbúnum sprengjum um allt,“ segir í frétt Alþýðublaðsins um áramótin 1946-1947. Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er sagt frá nokkrum gömlum áramótum, skaupum og brennum.

Börn kaupa flugelda á flugeldasölu árið 1975.
Börn kaupa flugelda á flugeldasölu árið 1975. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Áramótin sem rætt er um að ofan voru ein þau verstu í minni lögreglunnar þá. Í frétt Alþýðublaðsins mátti þetta einnig lesa:

„Lögreglan hafði mikinn viðbúnað fyrir gamlárskvöld. Allt lið hennar var tilbúið, varðmenn settir á ýmsa staði í bænum og á stöðinni voru fimm útrásarsveitir. Allt eldfimt hafði verið hreinsað úr portum, þar sem því varð við komið, en verðir settir þar, sem það var ekki hægt. Fyrir klukkan átta byrjaði mannfjöldi að safnast í miðbænum með sprengingum og ólátum. Voru þetta mest unglingar um tvítugt, og börn niður í 7-8 ára aldur. Lýður þessi náði sér í kassa með rusli og trjáull í, og kveikti í því, og varð til dæmis snemma mikið bál við Fiskifélagshúsið, neðarlega við Ingólfsstræti. Slökktu lögreglumenn það með handslökkviáhöldum.

Faxabrenna við Ægisíðu árið 1971.
Faxabrenna við Ægisíðu árið 1971. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Á Austurvelli höfðu fjórir lögreglumenn verið settir til að gæta jólatrésins, og voru gerðar margar atlögur til að kveikja í því, en það var allt hindrað. Þá náðu einhverjir í tunnur í miðbænum og veltu þeim fyrir bifreiðar og köstuðu ýmsu rusli í þær, en ekki tókst að velta þeim, þótt það væri reynt, vegna íhlutunar lögreglunnar. Víða tókust handalögmál, sprengingar voru miklar og ólæti.“

Greinina má lesa í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert