Hættur störfum fyrir Miðflokkinn

mbl.is/Þorsteinn Friðrik

Viðar Freyr Guðmundsson, formaður Miðflokksfélagsins í Reykjavík, hefur ákveðið að segja sig frá störfum fyrir Miðflokkinn.

Þetta hefur hann tilkynnt til stjórnar og trúnaðarmanna félagsins, að því er kemur fram í Facebook-færslu hans.

Þar segist hann hafa sagt sig frá störfum með Miðflokknum eftir mikið hugarstríð. Konfekt og laufabrauð hafi hjálpað honum að komast að niðurstöðunni.

„Ástæður þessa eru langvarandi óánægja með skipulagsleysi við stjórn flokksins og málefnastarf. Sem hefur kristallast t.d. í eftirmálum við Klaustursmálið og hvernig tekið var á þeim. Það vantar skýrari ábyrgðarkeðjur og lýðræðislegri ferla í starfið til að hægt sé að taka á erfiðum málum sem kunna að koma upp og eins til að reka hefðbundið lýðræðislegt flokkastarf,“ skrifar Viðar Freyr.

Hann segir töluvert vanta upp á að Miðflokkurinn sé á pari við suma aðra flokka þegar kemur að skipulagningu á málefnastarfi flokksins sem heild. „Það var svo sem hægt að horfa fram hjá þessu til að byrja með þar sem flokkurinn var nýr og varla sanngjarnt að bera saman við flokka sem hafa starfað í nærri 100 ár. En ég sé ekki neina bót á þessu á sjóndeildarhringnum. Þannig að ég tel að minni orku sé betur varið að starfa utan flokka að sinni.“

Viðar Freyr segir jarðveginn fyrir flokknum vera til staðar og þykir leiðinlegt að skilja við hann með þessum hætti. „En ég held að í fyllingu tímans munum við öll sjá að það er fyrir bestu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert