Þurfa að glíma við siðferðileg álitaefni

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

 Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti í morgun nýársávarp sitt í Dómkirkjunni í Reykjavík. Sagði hún meðal annars að Alþingismenn glímdu við siðferðileg álitamál þegar setja þyrfti lög eða breyta lögum sem fjalli um líf og lífslok. Sagði hún að þörf væri á því að allir vandi sig og hlusti á og virði ólík sjónarmið. Þá þurfi almenningur að leggja sitt af mörkum og taka þátt í umræðunni um slík málefni. Heilbrigðisráðherra lagði nýlega fram frumvarp sitt um þungunarrof og er þar heimild til þungunarrofs víkkuð miðað við núverandi lög.

Agnes sagði marga mega fara betur í heimi hér og tiltók nokkur mál sem sjónum hefur verið beint að. Þannig byggi hér á landi fólk við fátækt og húsnæðiseklu. Þá hefðu stórfyrirtæki falið staðreyndir til að tapa ekki fjármunum og vísaði hún til alþjóðlega fyrirtækisins Johnson og Johnson, en nýlega kom í ljós að fyrirtækið hafði lengi vitað af því að krabbameinsvaldandi efni væri að finna í barnapúður sem fyrirtækið selur. Þá talaði Agnes um þá sem eru á flótta og ungt fólk í neyslu. Sagði hún að fólk þyrfti að minnast þess að hvert líf væri mikils virði og hefði tilgang.

Þá kom biskup inn á skráningu trú- og lífsskoðunarfélaga og nefndi að sem þjóðkirkja landsins hefði félagið ákveðnar skyldur og lög sem þyrfti að framfylgja. Sagði hún að sem betur fer væri hér trúfrelsi, en að samkvæmt lögum þyrfti þó að uppfylla viss skilyrði til að skráning væri gild. Sagði biskup það vekja undrun að eitt félag hafi hlotið skráningu án þess að uppfylla skilyrði um trúfélagsskráningu. Sagði hún ekki hvaða félag það er, en síðasta árið hefur þó mikið verið deilt um hvort Zúistar teljist til trúfélags eða ekki. „Þess vegna vekur það undrun að félag sem ekki virðist hafa uppfyllt skilyrðin hafi verið skráð og þar með öðlast réttindi sem lögin veita,“ sagði Agnes í ávarpi sínu.

Lesa má ávarpið í heild sinn hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert