Hæstiréttur hafnar málskotsbeiðnum vegna skipunar Landsréttardómara

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands hafnaði í desember málskotsbeiðni sem var byggð á því að ekki hafi verið rétt staðið að skipun dómara við Landsrétt. Leyfisbeiðandi var í Landsrétti dæmdur í fangelsi í tvö og hálft ár fyrir nauðgun en taldi að rangt hafi verið staðið að skipun dómara við Landsrétt og dómari væri ekki með réttu handhafi dómsvalds.

Þá var málskotsbeiðni um áfrýjunarleyfi hafnað 20. júní á síðasta ári en hún var reist á sömu rökum og beiðnin sem tekin var fyrir í desember: Að einn dómari í málunum fyrir Landsrétti hafi ekki verið með réttu handhafi dómsvalds með því að ekki hafið verið farið að lögum við skipun í viðkomandi embætti.

Í apríl í fyrra barst Hæstarétti fyrsta málskotsbeiðnin sem byggð var á þessum rökum. Hún var samþykkt og mælti ríkissaksóknari með því að Hæstiréttur myndi taka málið fyrir. Hæstiréttur taldi að þrátt fyrir annmarka á skipun dómara við Landsrétt væri ekki næg ástæða til að ómerkja dóm Landsréttar eða sýkna ákærða. Sá dómur virðist nú vera notaður sem fordæmi vegna annarra málskotsbeiðna sem byggja á sömu málsatvikum.

Ekki næg ástæða til að ómerkja eða sýkna

Í ákvörðun Hæstaréttar frá 20. júní er vísað í dóm Hæstaréttar sem féll í kjölfar þess að fyrsta málskotsbeiðnin var samþykkt. Í dóminum var leyst úr álitaefni er laut að kröfu ákærða í því máli um ómerkingu dóms Landréttar eða sýknu hans á þeim grundvelli að skipun eins dómara sem sat í dómi í málinu hefði ekki verið í samræmi við lög.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að „ekki væri fyrir hendi næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipun dómara, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum.“

Var því ekki fallist á kröfu um ómerkingu dóms Landsréttar eða sýknu hans.

Ekki sami dómari

Málskotsbeiðnin sem tekin var fyrir af Hæstarétti í júní snýr þó ekki að þeim dómara sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar. Þrátt fyrir að um annan dómara sé að ræða taldi Hæstiréttur að atvik að baki málinu væru þau sömu og því var beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað með eftirfarandi rökstuðningi:

„Hefur leyfisbeiðandi hvorki hnekkt því sem í þeim dómi var lagt til grundvallar né gert líklegt að frekari röksemdir af hans hálfu leiði til slíkrar niðurstöðu. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 10/2018 verður því ekki fallist á að skilyrðum [...] sé fullnægt í málinu. Er beiðninni því hafnað.“

Hafnað með sömu rökum og áður

Þá komum við aftur að nýjustu ákvörðun Hæstaréttar sem tekin var 20. desember á síðasta ári.

Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa notfært sér ölvun konu til að hafa samræði við hana gegn vilja hennar. Refsing var eins og áður segir ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Hann taldi landsréttardómara ekki vera með réttu handhafa dómsvalds og sótti um leyfi til áfrýjunar.

Í ákvörðun Hæstaréttar þar sem áfrýjunarbeiðni var hafnað er vísað til ákvörðunarinnar frá 20. júní og áðurnefnds dóms Hæstaréttar. Í henni segir: „Atvik að baki máli þessu eru þau sömu og þar reyndi á. Að virtum gögnum málsins verður að öðru leyti ekki litið svo á að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem hafa áður gengið eða að mjög mikilvægt sé að öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar [...]. Er beiðninni því hafnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert