Framsýn og VLFG ákveða sig um framhaldið í næstu viku

Óánægja er með að hægt hefur gengið í viðræðunum.
Óánægja er með að hægt hefur gengið í viðræðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að í lok næstu viku liggi fyrir hvort stéttarfélagið Framsýn á Húsavík og Verkalýðsfélag Grindavíkur draga umboð sitt til baka frá Starfsgreinasambandinu og vísa kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara, líkt og VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness hafa gert.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík, segir að stíft verði fundað næstu daga í viðræðum SGS. „Við ákváðum að gefa þessu næstu viku. Þá verða áfram viðræður um sérmálin og síðan launaliðinn. Ef við verðum ósátt, þá munum við vísa þessu til ríkissáttasemjara,“ segir hann og nefnir að hörku skorti í viðræðurnar.

„Það að vísa deilunni til ríkissáttasemjara finnst okkur bara ábyrgðarhluti af því að með því er öllu ferli flýtt,“ segir hann. „Ef það verður ekki þannig í vikunni að það sé vilji til að semja og ná saman og SGS tekur ekki ákvörðun um að vísa þessu til ríkissáttasemjara, þá sé ég ekki annað en við munum taka umboðið til baka og vísa til sáttasemjara,“ segir Aðalsteinn í umfjöllun um samningamálin í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert