Sveitarfélögin gætu átt kröfu á öryrkja

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessi nýja staða geri að verkum að hvert einstakt sveitarfélag þarf að fara yfir þær greiðslur sem mögulega hafa átt sér stað til þessa hóps og meta það á hverjum stað fyrir sig hvort ástæða sé til að krefjast endurgreiðslu.“

Þetta segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, við Ríkisútvarpið um þá fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að leiðrétta skerðingu sem um eitt þúsund öryrkjar hafa orðið fyrir á liðnum árum vegna búsetu í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis síðasta sumar þess efnis að skerðingin standist ekki lög. Stjórnvöld hyggjast leiðrétta skerðinguna fjögur ár aftur í tímann en Öryrkjabandalagið vill að skerðingin verði leiðrétt að minnsta kosti áratug aftur í tímann.

Ljóst er að málið snýst um milljarða króna sem ríkissjóður þurfi að endurgreiða en Aldís segir óvíst hversu háar fjárhæðir sveitarfélögin gætu þurft að gera kröfu um endurgreiðslu á frá umræddum einstaklingum. „Við höfum auðvitað engar upplýsingar um það hversu mikið þetta er en væntanlega er þetta ekki neitt sums staðar, en annars staðar, sérstaklega í stærstu sveitarfélögunum, gætu þetta verið talsverðar fjárhæðir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert