Sjálfsafgreiðslan vekur spurningar

Á undanförnum misserum hefur sjálfsafgreiðsla færst í vöxt í daglegum viðskiptum fólks hérlendis. Þróun á tækninni er ör og ljóst að stærri fyrirtæki munu færa sig sífellt lengra í þá átt. 

Viðtökur almennings hafa verið góðar líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu í vikunni en sjálfsafgreiðslukassa er að finna í Krónunni, IKEA og Bónus. Í fimm af 33 verslunum Bónuss geta viðskiptavinir afgreitt sig sjálfir og að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins kjósa 45% þeirra að gera það.

Í verslun Krónunnar í Nóatúni 17 hefur fyrirkomulagið verið um nokkurra mánaða skeið og að sögn Guðlaugs Hannessonar verslunarstjóra nýta um 60% viðskiptavina verslunarinnar sjálfsafgreiðslukassana og hefur hlutfallið farið vaxandi.    

60% viðskiptavina Krónunnar í Nóatúni nýta sér sjálfsafgreiðslukassana.
60% viðskiptavina Krónunnar í Nóatúni nýta sér sjálfsafgreiðslukassana. mbl.is/Hallur Már

Hvaða spurningar vakna við sjálfsafgreiðslu?

Nýrri tækni fylgja þó nýjar áskoranir. „Hvað gerist ef neytandanum verður á? Hver ber ábyrgð á mistökum [í sjálfsafgreiðslu]?“ Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, vera spurningu sem fylgi aukinni sjálfvirkni í viðskiptum. Dæmi sé um að viðskiptavinur hafi verið þjófkenndur fyrir að hafa gert mistök við sjálfsafgreiðslu. 

Geta verslanir ýtt allri ábyrgð á að skanna vörur rétt yfir á neytendur? Guðlaugur segir að ávallt sé starfsmaður á vakt við sjálfsafgreiðslukassana sem aðstoði fólk þegar eitthvað kemur upp og þar njóti viðskiptavinirnir alltaf vafans. Líklega verður þessi spurning fljótlega úrelt þar sem verið er að þróa og innleiða tækni í verslanir þar sem skynjarar sjá allar hreyfingar á vörum út úr verslunum. Þannig verða mistök við skönnun útilokuð en einnig eru bundnar vonir við að þannig megi útrýma þjófnaði úr verslunum. Þjófnaður úr verslunum er gríðarstórt vandamál í vestrænum samfélögum og upphæðirnar sem verslanir þurfa að afskrifa á ári hverju vegna þjófnaðar eru svimandi háar. 

Önnur spurning vegna sjálfvirkninnar lýtur að vöruverði og Breki segir alveg ljóst að þróunin ætti að skila neytendum verðlækkunum. Hins vegar séu störfin sem tapist yfirleitt láglaunastörf og því óljóst hversu mikil sú lækkun ætti að vera. 

Í myndskeiðinu er farið í verslunarferð í Krónuna og fylgst með því hvernig sjálfsafgreiðslukassarnir virkuðu hjá formanni Neytendasamtakanna. 

Viktin er mikilvæg í sjálfsafgreiðslu hjá Krónunni. Passa verður upp …
Viktin er mikilvæg í sjálfsafgreiðslu hjá Krónunni. Passa verður upp á að leggja einungis vörur sem búið er að skanna inn á hana. mbl.is/Hallur Már
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert