„Mun ekki taka þátt í þessari sýningu“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson. Samsett mynd

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, las upp yfirlýsingar þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanna Miðflokksins, við upphaf fundar sem fer fram vegna ummæla Gunnars Braga á barnum Klaustri um högun skipunar í embætti sendiherra.

Í yfirlýsingu Gunnars Braga kom fram að tilefni fundarins væri „ólögmæt hljóðritun af ummælum sem ég lét fjalla [sic] í trúnaðarspjalli á veitingastað í borginni“. Hann segist hafa viðurkennt að hafa farið með rangt mál sem eigi ekki við rök að styðjast og kveðst engu hafa við það að bæta.

Hann segir að alþingismönnum beri ekki skylda til að mæta á fundinn sem um ræðir og talar að boðað hafi verið til fundarins „í þeim annarlega tilgangi til að koma höggi á andstæðinga“.

Einnig segir Gunnar að hann „muni ekki taka þátt í þessari sýningu“ enda ljóst að ekki sé ætlunin að fjalla um málið á hlutlægan hátt.

Í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs kom fram að engin rannsókn hafi farið fram á tildrögum þess að hljóðupptökurnar voru teknar á barnum og að ógjörningur sé að segja til um hvað hafi verið klippt út úr þeim og hvað hafi verið „soðið saman“.

Segir hann að með því að efna til fundarins hafi formaður nefndarinnar „gefið upp boltann fyrir óprúttna aðila til að gerast enn aðgangsharðari“.

Sigmundur segir engan siðferðislegan grundvöll vera fyrir umræðunni á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert