Mikið traust nemenda til kennara

Meirihluti nemenda ber traust til kennara á sama tíma og …
Meirihluti nemenda ber traust til kennara á sama tíma og nemendur telja álagið of mikið. mbl.is/Hari

Um 90% nemenda líður vel og flestir bera mikið traust til kennara, samkvæmt rannsókn um  líðan grunnskólanema. 

„Niðurstöður þessarar rannsóknar eru bæði gagnlegar og forvitnilegar – það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikið traust nemendur virðast bera til kennara sinna. Ég tel það skipta miklu fyrir vellíðan og árangur í skólakerfinu. Það sýnir sig einnig í öðrum gögnum, svo sem frá OECD, þar sem fram kemur að einn meginstyrkleiki íslenska menntakerfisins séu góð samskipti nemenda og kennara,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu þar sem fjallað er um niðurstöðu rannsóknarinnar.

Rannsóknastofa í tómstundafræðum Háskóla Íslands birti á dögunum niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema sem unnin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (e. WHO). Niðurstöðurnar byggja á svörum rúmlega 7.000 nemenda á landinu öllu sem þátt tóku í rannsókninni í fyrra. Rannsóknin er lögð fyrir á fjögurra ára fresti fyrir nemendur í 6., 8. og 10. bekk.

Líðan nemenda er almennt góð samkvæmt rannsókninni og flestum nemendum virðist líða vel eða þokkalega í skólanum en smávægilegur breytileiki er á milli landshluta og aldurshópa. Þannig svara um 90% nemenda að þeim líði þokkalega eða mjög vel í skólanum. Um 10% nemenda segjast ekki líða vel í skólanum en 2,7%-4,2% nemenda líður mjög illa samkvæmt rannsókninni.

Flestir nemendur telja að kennurum sé annt um sig eða um 81% nemenda í 6. bekk og 65% í 10. bekk sem er jákvæð niðurstaða og rímar vel við almenna vellíðan nemenda í skólum landsins. Langflestir treysta kennara sínum vel og virðist það eiga við nemendur í öllum landshlutum. 

Spurt var um líkamsrækt og hreyfingu í rannsókninni og sé litið til landsins í heild þá kemur í ljós að flestir nemendur í öllum aldurshópum hreyfa sig reglulega. Athygli vekur hve margir nemendur hreyfa sig a.m.k. 60 mínútur fjóra daga í viku eða oftar í öllum aldurshópum sem verður að teljast mjög jákvæð niðurstaða. Nokkuð dregur úr hreyfingu með hækkandi aldri og í 10. bekk svöruðu 8,2% nemenda því til að þeir hefðu ekki hreyft sig undanfarna sjö daga.

Matarvenjur nemenda virðast einnig vera nokkuð góðar en ávaxta- og grænmetisneysla er mjög almenn meðal nemenda og mjög lítill hluti þeirra segist aldrei neyta slíkra vara. Samkvæmt skýrslunni virðist vera aukning á neyslu orkudrykkja með hækkandi aldri á milli kannana.

Námsálag eykst á milli 6. og 10. bekkjar en 9,5% nemenda í 6. bekk telja álag í námi vera mikið en rétt tæpur fjórðungur nemenda í 10. bekk telur námsálag vera mikið. 

Einnig er spurt um heilsu nemenda en talsverð aukning er á milli fyrirlagna á tíðni höfuðverkja meðal nemenda og fer tíðni verkja vaxandi frá 6. bekk. Lítill sem enginn munur er á milli landsvæða.

Um 70% nemenda í öllum árgöngum telja sig finna sjaldan eða aldrei fyrir depurð. Hins vegar ber að skoða þessar niðurstöður vel því marktæk hækkun er milli fyrirlagna í 6. og 10. bekk þar sem 10-15% nemenda í 6. bekk segjast upplifa depurð einu sinni eða oftar í viku en um 20% nemenda í 10. bekk grunnskóla. Þetta er aukning frá árinu 2006 þegar 5,8% nemenda í 10. bekk kváðust upplifa depurð daglega en árið 2018 er það hlutfall komið í 7,6%. Séu niðurstöður skoðaðar eftir kyni nemenda kemur í ljós að stelpur eru mun líklegri til að finna fyrir depurð á hverjum degi og ástandið versnar eftir því sem unglingar eldast.

Örlítið virðist draga úr svefnörðugleikum með hækkandi aldri þátttakenda en engu að síður segjast um 10% allra nemenda í 10. bekk eiga erfitt með svefn á nærri því hverri nóttu. Í raun má segja að aðeins rétt rúmlega helmingur unglinganna eigi sjaldan í vandræðum með svefn, þ.e. mánaðarlega eða sjaldnar.

Nokkur breytileiki er milli landshluta á tíðni þolenda eineltis sem almennt er frekar lítið en tíðni dregst saman eftir því sem ungmenni eldast. Því má segja að vel hafi tekist til í eineltisforvörnum í íslenskum skólum.

Áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna á Íslandi er almennt lítil og um 70% nemenda hafa aldrei smakkað áfengi. Hins vegar reykja 5% nemenda í 10. bekk að staðaldri og 25% nemenda í 10. bekk hafa prófað rafrettur og er það hlutfall nokkuð misjafnt milli landshluta. Niðurstöður kannana Rannsókna og greiningar hafa einnig sýnt fram á góðan árangur í forvörnum á undanförnum áratugum. Eigi að síður þarf að viðhalda þeim árangri með áframhaldandi forvarnarstarfi þar sem nýjar áskoranir verða ávallt til staðar, segir enn fremur í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Rannsóknin Heilsa og lífskjör skólanema er ein viðamesta rannsókn samtímans á sviði heilsu og heilsutengdrar hegðunar ungs fólks en rúmlega 40 lönd tóku þátt í fyrirlögn hennar árið 2018. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert