Segir stefnu í heilbrigðismálum marxíska

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að jafnt og þétt komi betur í ljós að núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks sé í raun og veru tilgangslaus ríkisstjórn sem snúist aðeins um að halda sjó og stólum.

Í ræðu hans í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi gagnrýndi hann ríkisstjórnina fyrir skort á framtíðarsýn gagnvart fjármálakerfinu og sagði enga sýn birtast í nýrri hvítbók um framtíð fjármálakerfisins. Katrín Jakobsdóttir sagði þó í ræðu sinni fyrr í dag að skýr vilji væri hjá ríkisstjórninni að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Þá sagði Sigmundur yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar vera að skerða kjör bænda í landinu. „Framlög til þeirrar stéttar munu lækka jafnt og þétt á meðan gert er ráð fyrir stighækkandi framlögum til annarra atvinnugreina,“ sagði Sigmundur og vísaði til fjármálaáætlunar. Sagði hann byggðamál í landinu vera í óvissu og ferðaþjónustuna sömuleiðis. „Menn leggja ekki í framkvæmdir vegna þess að stjórnvöld veita ekki sýn [á] hvers er að vænta.“

Þá sagði Sigmundur heilbrigðisráðherra hafa einbeittan vilja til að innleiða marxískt heilbrigðiskerfi á Íslandi „með þeim afleiðingum að til er að verða tvöfalt heilbrigðiskerfi“. Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði í andsvari við ræðu Sigmundar að þetta væri orðhengill og spurði hvort það væri marxískt að hans mati að auka kostnaðarþátttöku ríkisins í tannlækningum aldraðra og öryrkja eða fella niður komugjöld hjá heilbrigðisstofnunum.

Sigmundur sagði að fjölmörg dæmi væru um að heilbrigðisráðherra sé í baráttu við allan rekstur sem falli utan Landspítala og að sjúklingar væru frekar sendir í aðgerðir erlendis í stað einkarekinna stofa hér á Íslandi þrátt fyrir að kostnaður við aðgerðirnar hér á landi sé aðeins brot af þeim kostnaði sem hlýst af því að borga aðgerðir sjúklinga utan lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert