Orðbragðið engu skárra en á Klaustri

Bergþór Ólason segir orðbragð þingmanna á fundi umhverfis- og samgöngunefndar …
Bergþór Ólason segir orðbragð þingmanna á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag hafi komið sér á óvart. Haraldur Jónasson/Hari

„Orðbragð sem þarna kom fram var engu skárra en það sem kom fram hjá mönnum á Klaustri hér forðum,“ segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, í samtali við mbl.is um þær móttökur sem hann fékk á fundi nefndarinnar í morgun.

Hann segist að hluta hafa verið búinn undir viðbrögð við því að hann myndi starfa áfram sem formaður nefndarinnar og stýra fundi hennar í dag.

„Það höfðu ýmsir þingmenn í nefndinni haft uppi orð á fyrri stigum, þannig að ég var nú viðbúinn því að gerðar yrðu athugasemdir og sett fram bókun eins og þarna var gert,“ segir Bergþór.

Hins vegar hafi komið honum á óvart þau orð sem einstakir þingmenn létu falla á fundi nefndarinnar.

Fram var lögð tillaga þess efnis að kjósa nýjan formann nefndarinnar, en henni var mætt með frávísunartillögu sem var samþykkt með sjö atkvæðum gegn tveimur.

„Nefndin vildi að stjórnarandstöðuflokkarnir ræddu þetta á sínum vettvangi því það er undirliggjandi samkomulag stjórnarandstöðuflokkanna um skiptingu nefndarsæta,“ útskýrir Bergþór.

Heldur þú að hægt verði að lægja öldur og að nefndin geti starfað áfram út kjörtímabilið?

„Já, ég tel enga ástæðu til þess að ætla annað. Samstarfið hefur gengið mjög vel í nefndinni þetta ár sem ég hef stýrt henni og það sýndi sig þarna í morgun að samgönguáætlun er afgreidd út úr nefndinni,“ svarar þingmaðurinn.

„Stjórnmálin eru bara þannig að það eru pólitískir andstæðingar að takast á og það hafa ábyggilega ýmsir á einhverjum tímapunkti hugsað nefndarformönnum þegjandi þörfina út af öðrum málum,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert