Þriðjungur starfsfólks fundið fyrir myglu

Alma D. Möller landlæknir segir yfir 20 starfsmenn hafa kvartað …
Alma D. Möller landlæknir segir yfir 20 starfsmenn hafa kvartað yfir myglu og þar af séu sex sem geta ekki unnið í húsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um þriðjungur starfsmanna landlæknisembættisins hefur fundið fyrir áhrifum myglu í húsnæði gömlu Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg þar sem skrifstofa landlæknisembættisins er til húsa. Þetta staðfestir Alma D. Möller landlæknir í samtali við mbl.is. Greint var frá því í fréttatíma RÚV í gærkvöldi að óháður matsmaður rannsaki nú húsnæðið vegna gruns um myglu.

„Þetta á sér langa sögu, en hefur versnað,“ segir Alma. „Þetta eru orðið yfir 20 manns sem hafa kvartað og þar af eru sex sem geta ekki unnið í húsinu og eru því komnir annað.“ Alls starfa um 60 manns hjá embættinu og var byrjað að  skoða hvort mygla leyndist í húsinu áður en Alma tók við embætti vorið 2018.

Haft var eftir eiganda hússins í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að bæði hann og landlæknisembættið hafi fengið fyrirtæki til þess að rannsaka húsnæðið og niðurstöður hafi stangast á. Því hafi verið kallaður til óháður matsmaður sem nú sé að störfum. 

Alma staðfestir að þetta sé rétt, en tjáir sig ekki um þau orð eigandans að ítrekaðar athugasemdir hafi verið gerðar við umgengni og ræstingar á skrifstofum landlæknisembættis að öðru leyti en að segja: „Það er búið að þrífa mjög vel síðan ég kom hingað alla vega.“

Spurð hvort einhverjir hlutar húsnæðisins séu ónothæfir sökum myglu segir hún svo ekki vera. Fólk hafi hins vegar verið fært til innanhúss eftir því sem þurft hefur. „Það eru þó svæði sem eru verri en önnur,“ segir Alma og kveður brýnt að málin komist í lag þar sem þetta hafi töluverð áhrif á starfsemi embættisins. „Eins og gefur að skilja þar sem við höfum þurft að finna starfsmönnunum sex vinnuaðstöðu í heilbrigðisráðuneytinu í Skógarhlíð.“

Alma er sátt við störf óháða matsmannsins sem nú skoðar húsið, en telur niðurstöðu ekki að vænta alveg á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert