Snjallsímabann stórbætti skólabraginn

„Það er þvílíkur munur í frímínútum að sjá nemendur hér leika sér, spjalla, lesa. Það er bara frábært að sjá þetta,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri í Varmárskóla í Mosfellsbæ, en þar tók bann við notkun snjallsíma gildi í eldri deild eftir áramót. Skólabragurinn hefur stórbatnað í kjölfarið.

Ég heimsótti Varmárskóla og í myndskeiðinu er rætt við nemendur og kennara ásamt Þórhildi. Krakkarnir eru sammála um að breytingin hafi verið til góðs en þau fengu að hafa áhrif á hvernig væri best að útfæra hana. 

Séu nemendur með símana á lofti innan veggja skólans þurfa þeir að afhenda starfsfólki skólans símann og geta fengið hann til baka við lok dags. Hins vegar mega þeir vera með þá í skápum sínum eða vösum og sumir kennarar leyfa notkun þeirra stundum inni í skólastofum ef hún tengist námsefninu.

Fleiri skólar hafa gripið til þessa ráðs og búast má við að þeim fari fjölgandi ef marka má reynsluna úr Mosfellsbæ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert