„Þetta er allt meira eða minna rangt“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra segir að það sé rangt að til standi að leggja niður embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum líkt og Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hélt fram í ræðu sem hann flutti á Alþingi í dag. Það sé einnig rangt sem fram kom í ræðu Páls að sérstök sendinefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins hafi verið gerð út til Eyja.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að hið rétta sé að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum muni frá næstu mánaðamótum taka að sér tímabundin störf fyrir sýslumannaráð meðal annars í tengslum við ákvörðun sem hún hafi tekið síðasta sumar í góðu samráði við alla sýslumenn þess efnis að farið yrði í gagngera skoðun á framtíðarstefnumótun vegna allra sýslumannsembættanna í landinu.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þar til skipunartíma hennar lýkur um næstu áramót verður annars sýslumaður af þessum sökum settur í Vestmannaeyjum,“ segir Sigríður. Þannig sé það rangt að enginn sýslumaður verði í Eyjum. „Þannig að þetta er allt meira eða minna rangt.“

Sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum verði þannig óbreytt með þeim breytingum þó að sýslumaðurinn á Suðurlandi muni gegna því tímabundið út árið þar til ákvörðun hafi verið tekin um annað. Þá sé þess vænst að niðurstaða verði komin í þá vinnu sem sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum sé að fara í með sýslumannaráði og dómsmálaráðuneytinu.

Jafnvægis gætt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar

Fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu vegna ummæla Páls að enginn starfsmaður dómsmálaráðuneytisins hafi farið til Vestmannaeyja í embættiserindum vegna breytinga á yfirstjórn sýslumannsembættisins þar. Páll hafi því ekki getað hitt þar fyrir sendinefnd frá ráðuneytinu.

„Dómsmálaráðuneytið tilkynnti um breytingar á yfirstjórn sýslumannsembættisins í Vestmannaeyjum á vef ráðuneytisins í gær. Það gerði ráðuneytið í góðu samráði við bæði sýslumanninn í Vestmannaeyjum og sýslumanninn á Suðurlandi en þeim hafði verið veitt svigrúm til að tilkynna starfsmönnum embættisins í Vestmannaeyjum um breytingarnar.“

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þingmönnum eða bæjaryfirvöldum hafi ekki verið veitt staðfesting þess efnis að engar breytingar gætu orðið á yfirstjórn embættis sýslumannsins í Vestmannaeyjum líkt og Páll hafi viljað meina. Fordæmi séu fyrir því að sýslumaður sé settur tímabundið, til eins árs, yfir annað embætti sýslumanns og heimild fyrir því í lögum.

„Dómsmálaráðherra hefur kynnt bæði á vettvangi ríkisstjórnar og á fundi sýslumannafélagsins í haust að til stæði að ráðast í greiningarvinnu á embættum sýslumanns um land allt með það fyrir augum að greina reksturinn og leita tækifæra til rafrænnar þjónustu og fleira sem miðar að skilvirkari rekstri allra embætta sýslumanns.“

Þá séu engin áform um að skipa einn sýslumann yfir landið allt sem staðsettur yrði í Reykjavík eins og kom fram í ræðu þingmannsins. „Þvert á móti er að mati ráðherra mikilvægt að við skoðun á þessum málaflokki sé gætt jafnvægis milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar við allar breytingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert