Hlusta á það sem fólkið hefur að segja

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósialistaflokks Íslands.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósialistaflokks Íslands. mbl.is/Eggert

„Þetta eru bara frábærar fréttir,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, í samtali við mbl.is um niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Gallups sem sýnir flokkinn með 5,3% fylgi á landsvísu.

Sósíalistaflokkurinn mældist með 3,4% í desember og hafði þá bætt við sig ríflega tveimur prósentustigum frá því í nóvember þegar fylgið var einungis 1,3%. Fylgisaukning flokksins virðist helst hafa verið á kostnað Flokks fólksins. Fengi Sósíalistaflokkurinn 5,3% fylgi í þingkosningum myndi það skila flokknum fulltrúum inn á þing.

„Við finnum fyrir gríðarlega miklum stuðningi,“ segir Sanna. „Við höfum verið að vinna með ýmsum hagsmunasamtökum almennings. Við erum ekki að tala fyrir ofan fólkið sem tilheyrir verst stöddu hópunum í samfélaginu og um það heldur hlustum við á það sem fólkið hefur að segja. Hvað því finnst að við eigum að leggja áherslu á.“

Þannig hafi flokkurinn verið að beina spjótum sínum að fjármagnseigendum og gera þá kröfu til þess að þeir greiddu sanngjarnan hlut til samfélagsins. Hún vísar síðan í það sem er að gerast í samfélaginu, til dæmis varðandi forystu verkalýðsfélaganna. „Það er bara einfaldlega ákveðin alda í samfélaginu, tel ég, sem er að styrkjast og eflast.“

Spurð hvort tekin hafi verið ákvörðun á vettvangi Sósíalistaflokksins um að bjóða fram við næstu þingkosningar segir Sanna enga formlega ákvörðun hafa verið tekna í þeim efnum. Sanna segir að þó til séu þingmenn á Alþingi sem sé hugað um hagsmuni alþýðunnar vanti sterkan málsvara verkafólks og þeirra verst stöddu í samfélaginu inn á þing.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert