Háspennulínur í bakgarðinum

Íbúar Skagafjarðar eru margir lítt hrifnir af hugmyndinni um lagningu …
Íbúar Skagafjarðar eru margir lítt hrifnir af hugmyndinni um lagningu rafmagnslína (220kV) yfir jarðir sínar. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Sveitarstjórn Skagafjarðar mun á fundi sínum í dag taka fyrir beiðni um að lengja frest til þess að gera athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þar er gerð tillaga um val á legu Blöndulínu 3 um héraðið. Sú leið sem sveitarstjórn leggur til nefnist Héraðsvatnaleið en ef af verður mun hún liggja um 20 jarðir í Skagafirði. Íbúar eru ekki allir á eitt sáttir við fyrirhuguð áform. Eins hefur verið bent á að línan muni fylgja hringveginum og því vera sýnileg þeim sem þar fara og sjónræn áhrif þar því mikil.

Jón Örn Berndsen, skipulags- og byggingarfulltrúi Skagafjarðar, á von á því að sveitarstjórn samþykki á fundi sínum í dag að lengja frestinn til að gera athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi til 25. febrúar líkt og samþykkt var í skipulags- og byggingarnefnd á síðasta fundi nefndarinnar. Þegar hafi komið töluvert af athugasemdum við breytingar á aðalskipulaginu og væntanlega verði þær fleiri ef fresturinn verður framlengdur. Fyrri frestur rann út á mánudag.

Eitt af því sem hefur komið upp í umræðunni í Skagafirði er hvort ekki mætti byggja 132 kV línu í stað 220 kV eins og lagt er til af hálfu Landsnets, sem annast lagningu Blöndulínu 3. Sveitarfélagið kannaði það hjá Landsneti og fékk meðal annars þau svör að sá möguleiki sé fyrir hendi, það er að byggja 132 kV línu en hins vegar er flutningsgeta nýrrar 132 kV línu ekki metin næg til lengri tíma og uppfylli því ekki langtímamarkmið framkvæmdarinnar.

Ein af lykilforsendum þess að sveitarfélagið setur Blöndulínu 3 inn á skipulag er að hún er hluti af grunninnviðum samfélagsins á Íslandi, samkvæmt því sem fram kemur í tillögu sveitarstjórnar að breytingu á aðalskipulagi.

Hér er hægt að lesa tillöguna í heild og greinargerðina sem fylgir með

Auki líkur á orkufrekri atvinnuuppbyggingu í framtíðinni

Meginrökstuðningur fyrir vali á Héraðsvatnaleið er að hún tryggi betur en aðrir kostir að hægt verði að auka verulega aðgengi sveitarfélagsins að raforku. Auk þess að tryggja aukna afhendingargetu um Rangárvallalínu, 132 kV, mun tenging við Blöndulínu 3, 220 kV, tryggja að sveitarfélagið geti boðið upp á orkufreka atvinnuuppbyggingu í framtíðinni.

Héraðsvatnaleið skerðir vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi minna en Kiðaskarðsleið með tengingu við Varmahlíð og Efribyggðaleið, segir meðal annars í greinargerðinni en kostir og gallar þeirra leiða voru einnig skoðaðir af hálfu sveitarfélagsins.

Héraðsvatnaleið skerðir votlendi minna en Kiðaskarðsleið með tengingu við Varmahlíð og Efribyggðaleið og skerðir votlendi, sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, minnst. Héraðsvötnin eru ekki í verndarflokki samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk hjá Umhverfisstofnun.

Lagt til að hluti línunnar verði lagður í jörð

Héraðsvatnaleið skerðir vatnsverndarsvæði minnst, samkvæmt greinargerð sveitarstjórnar Skagafjarðar. Fleiri ferðamannastaðir eru í nágrenni Héraðsvatnaleiðar, innan fimm km fjarlægðar, en á öðrum leiðum. Til að bregðast við því er lagt til að hluti línunnar frá Húseyjarkvísl og austur fyrir Vindheima, fari í jörðu, til að draga úr sjónrænum áhrifum.

Héraðsvatnaleið fylgir eða er nærri mannvirkjabeltum í Skagafirði, sem eru núverandi raflína og hringvegurinn. Að mati sveitarstjórnar er verið að breyta einkennum landslags minna á slíku belti, en ef farið er um tiltölulega óröskuð svæði eða svæði þar sem ekki eru grunninnviðir í nágrenni. Hins vegar er ljóst að með því að línan fylgi hringveginum, munu fleiri sjá Blöndulínu en ef hinir tveir kostirnir yrðu fyrir valinu.

Sveitarstjórn leggur því til að ákveðinn hluti hennar fari í jörðu, a.m.k. 3 km, frá Húseyjarkvísl og austur fyrir Vindheima og að hugað verði að tegund mastra og að staðsetning mastra verði til þess að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum.

Línan á að koma á milli bæjarins á Saurbæ og …
Línan á að koma á milli bæjarins á Saurbæ og heilsárshússins (þar sem skógarrjóðrið norðan við bæinn er). Myndin er tekin ofan af Vindheimamelum.

Það er mat sveitarstjórnar að lega Héraðsvatnaleiðar austan við Vindheima sé þannig að dregið verði talsvert úr sýnileikanum frá hringveginum, þar sem línan mun bera við hækkun í landinu en ekki himin. Auk þess eru settir skilmálar um að við endurnýjun á Rangárvallalínu verði hún lögð í jörðu innan tveggja ára frá því að framkvæmdum við Blöndulínu 3 lýkur.

Sama á við um Blöndulínu 2, þ.e. að hún fari í jörðu innan tveggja ára frá framkvæmdalokum. Þannig verði til framtíðar loftlínum í sveitarfélaginu ekki fjölgað og dregið úr sjónrænum áhrifum raforkuinnviða í sveitarfélaginu.  

Jón segir að ekki sé ljóst á þessari stundu hvað verður en það sé sett þannig fram í greinargerðinni að þetta séu forsendur þess að hægt verði að fara þessa leið, það er að hluti hennar fari í jörð. 

Ekki liggur heldur fyrir af hálfu Landsnets hver stærð mastra verði eða hversu þétt þau verða, segir Jón. Sveitarfélagið sé bundið af stefnu stjórnvalda og kerfisáætlun og rammaáætlun þegar kemur að aðalskipulagi. 

Héraðsvatnaleið er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á landslag og ásýnd ef um loftlínu er að ræða en óveruleg áhrif ef lagður verður jarðstrengur. Leggja þyrfti vegslóða meðfram línuleið að stórum hluta hvort sem um er að ræða loftlínu eða jarðstreng. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er unnt að leggja jarðstreng um 3-5 km frá Blöndu að Akureyri, að því er fram kemur í greinargerð með breytingartillögunni.

Sveitarfélagið telur að mestur ávinningur væri að leggja línu í jörðu frá Húseyjarkvísl og austur fyrir Vindheima, þar sem hún getur mögulega fylgt núverandi vegslóðum. Sveitarfélagið leggur því til breytingar á legu Héraðsvatnaleiðar frá þeirri sem Landsnet hefur áður lagt til, það er Héraðsvatnaleið fyrri.

Með því að færa línuleiðina á þessum kafla og setja að hluta í jörðu er dregið talsvert úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Hún er færð fjær hringveginum og stytt. Auk þess er hún lögð í jörðu þar sem Vindheimar eru, sem er skilgreint sem útivistarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins, segir í greinargerðinni.

Fuglafriðland við Héraðsvötn.
Fuglafriðland við Héraðsvötn. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Heppin að lenda sjálf ekki undir einu mastrinu

Heiðrún Ósk Eymundsdóttir, bóndi á Saurbæ, segir að ef þessi Héraðsvatnaleið verði fyrir valinu þá muni línan liggja beint yfir eiginlega allar byggingar á jörðinni og gæti eiginlega ekki farið nær íbúðarhúsum. „Eins og þetta lítur út í þessu aðalskipulagi er ég heppin að lenda ekki sjálf undir einu mastrinu,“ skrifar Heiðrún á Facebook. 

Í samtali við mbl.is segir hún alveg ljóst að áhrifin verða mjög neikvæð enda veldur svona lína mengun. Þar má nefna sjónmengun, neikvæð áhrif rafsegulsviðs og hljóðmengun. Að auki er erfitt að gera sér nákvæmlega grein fyrir því hvar línan á að liggja og þær uppslýsingarnar sem settar eru fram á aðalskipulagi ekki nægilega skýrar. „Þar má nefna að á loftlínumynd af svæðinu sé ekki einu sinni allar jarðirnar sem línan liggur í gegnum merktar inn. Það vantar að merkja inn öll hús inn á kortið, hvort sem það er íbúðarhús eða útihús. Hvers vegna þetta er svona skil ég bara ekki, segir Heiðrún og fleiri íbúar Skagafjarðar sem mbl.is hefur rætt við taka í svipaðan streng.

Sveitarfélagið hafi sett inn auglýsingu um tillögu að breytingum á aðalskipulaginu á vef sveitarfélagsins skömmu fyrir jól og margir ekki náð að kynna sér tillöguna nægjanlega vel áður en fresturinn til að skila inn athugasemdum rann út 4. febrúar, segir Heiðrún. Jafnvel hafi fólk ekki einu sinni vitað af þessum fyrirhuguðu breytingum á aðalskipulaginu en kynningarfundur um fyrirhugaðar breytingar var haldinn 23. janúar.

Heiðrún segir að við fyrstu sýn virðist Landsnet vera allt í kringum borðið þegar kemur að lagningu Blöndulínu 3 um Skagafjörð. Það er ákvarðanir sveitarfélagsins byggi á því sem Landsnet segir. Á sama tíma sé Landsnet framkvæmdaraðilinn.

Mun liggja í 200 metra fjarlægð frá bænum

„Það virðist sem ekkert annað fyrirtæki komi að ráðgjöf til sveitarfélagsins varðandi lagningu línunnar. Hvað þá með hagsmuni okkar sem hér búum? Eins finnst mér það ekki nægjanlega útskýrt hvers vegna þörf er á lagningu 220 kV strengs í stað 132 kV þar sem reka á nýjan streng á 132 kV afli í upphafi og ekki er gefið upp í greinargerðinni hvenær þörf er á að reka hann á 220 kV spennu,“ segir Heiðrún.

„Við fögnum því að sjálfsögðu að hluti línunnar eigi að fara í jörð en ég er ekki sátt við að það þýði að línan eigi að liggja svo nærri öllum byggingunum á bænum og furða mig á rökunum á bak við þessa tillögu. Að fara þessa leið í gegnum mitt land. Mér sýnist samkvæmt þessum kortum að línan muni liggja u.þ.b. 200 metra frá flestum byggingum á bænum, þar með töldu íbúðarhúsinu og heilsárshúsi sem frænkur mínar eiga hér norðan við mig.

Fyrri Héraðsvatnaleið var slæm fyrir okkur en þessi er enn verri. Við erum búin að byggja hér upp náttúruparadís og síðan á að troða þessu yfir okkur. Þetta rýrir verðgildi jarða hér í Skagafirðinum enda hver heldur þú að vilji kaupa jörð þar sem búið er að setja ógrynni af möstrum og háspennulínur inn á og það nálægt íbúðarhúsum? Við viljum að línan verði lögð í jörð þar sem rask af lagningu hennar er mun minna þannig. Því það er ekki eins og við séum á móti rafmagni heldur viljum við að hagsmunir Skagafjarðar og Skagfirðinga auk náttúrunnar verði hafðir að leiðarljósi,“ segir Heiðrún Ósk Eymundsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert