Vill umræðuna um EES-samninginn á hærra plan

Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi.
Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði að það væri nauðsynlegt að lyfta umræðunni um EES-samninginn á hærra plan á málstofu í Háskólanum í Reykjavík (HR) í dag. Málstofan er haldin í tilefni af því að 25 ár eru liðin frá innleiðingu samningsins. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem var einnig meðal framsögumanna, tók undir með Guðlaugi og sagði að umræðan mætti gjarnan fara á hærra plan.  

Guðlaugur sagði samninginn vera áhrifamesta milliríkjasamning Íslands. Hann tók fram að  um þriðjungur Íslendinga eru fæddir eftir gildistöku samningsins. Það mætti í raun nefna þessa kynslóð EES-kynslóðina, sagði Guðlaugur og bætti við að margir Íslendingar þekki ekki líf án þeirra fjölmörgu réttinda sem samningurinn veitir þeim.
„Þessi staða er hættuleg. Því þegar við teljum eitthvað sjálfsagt eða sjálfgefið erum við aldrei jafn nálægt því að missa það,“ sagði Guðlaugur.

Sameinast um að koma EES-samningnum fyrir kattarnef

Guðlaugur sagði EES-samninginn eiga undir högg að sækja og það frá tveimur ólíkum hópum; Þeim sem vilja ganga í ESB og þeim sem telja samninginn ganga að fullveldi Íslands. „ESB-sinnum hefur borist óvæntur liðsauki. Hreyfing sem vill inngöngu í ESB og sjálfskipaðir fullveldissinnar hafa sameinast um að koma EES-samningnum fyrir kattarnef.“

Frá fundinum í HR í dag.
Frá fundinum í HR í dag. mbl.is/Eggert

Aðgengi Íslands að innri markaði ESB er kjölfestan í EES-samningnum en þar sem Ísland stendur utan tollabandalagsins getum við einnig leitað nýrra tækifæra á öðrum mörkuðum að sögn Guðlaugs. EES-samningurinn væri þannig helsta hindrun þeirra sem vilja að Ísland gangi í tollabandalagið. Einfaldlega vegna þess hversu góður samningurinn er, sagði Guðlaugur.

Hann sagði ESB-sinna á Íslandi reyna að grafa undan EES samningnum og að oft væri að finna rangfærslur í þeim málflutningi. Það væri t.d. ekki rétt að Ísland innleiddi um 80 til 90% af Evróputilskipunum. „Hér er um hreina og klára rangfærslu að ræða,“ sagði Guðlaugur. Innleiðingarhlutfall Íslands frá gildistöku samningsins sé í raun 13,4%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert