„Jafn trúverðug og allur almenningur“

Jón Baldvin Hann hélt því meðal annars fram að þráhyggja …
Jón Baldvin Hann hélt því meðal annars fram að þráhyggja gagnvart kynlífi væri eitt helsta einkenni geðhvarfasýki. Skjáskot/Rúv

Landssamtökin Geðhjálp hafa sent frá sér yfirlýsingu um megineinkenni geðhvarfa vegna fjölda erinda sem borist hafa samtökunum og vekja athygli á því að einkenni geðhæða hverfi um leið og jafnvægi er náð á ný.

„Brýnt er að almenningur sé meðvitaður um að þegar einstaklingur með geðhvörf er ekki í geðhæð sé hann jafn veruleikatengdur og trúverðugur og allur almenningur. Síðast en ekki síst er því alfarið vísað á bug að eitt af megineinkennum geðhæða felist í auknum áhuga á kynlífi þótt dæmi séu um slíkt á meðan á geðhæð stendur,“ segur í yfirlýsingunni.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, hefur ítrekað afskrifað ásakanir dóttur sinnar um kynferðisofbeldi sem ranghugmyndir geðveikrar manneskju. Hann hélt því meðal annars fram að þráhyggja gagnvart kynlífi væri eitt helsta einkenni geðhvarfasýki.

„Geðhjálp minnir á að fólk með geðraskanir verði fyrir hvað mestum fordómum af öllum jaðarsettum hópum í samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu og að fjölmiðlafólk, áhrifavaldar og almenningur þurfi að vera vakandi fyrir því að ala ekki á fordómum gagnvart þessum hópi með því að birta fordómafull ummæli á opinberum vettvangi.

„Þegar ekki takist að v[e]fengja fordómafull ummæli viðmælenda á meðan umfjöllun standi, sé eðlilegt að bregðast við rangfærslum með því að birta réttar upplýsingar.“

Stjórn Geðhjálpar hvetur fjölmiðla til að ljá fólki með sögu um geðrænan vanda rödd, draga ekki í efa trúverðugleika þess og stuðla að fræðslu almennings um eðli geðraskana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert