Var í kalda pottinum og að æfa köfun

Frá Sundhöll Reykjavíkur.
Frá Sundhöll Reykjavíkur. mbl.isKristinn Magnússon

Maðurinn sem í gærkvöldi var hætt kominn í Sundhöll Reykjavíkur hafði verið í kalda pottinum og farið í laugina að æfa þolköfun strax á eftir áður en hann missti meðvitund. Þetta staðfestir Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Sundhallar Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

„Hann er lengi í kalda pottinum og fer síðan beint út í laug og byrjar á svona þolköfun,“ segir Logi og bætir við að stórhættulegt geti verið að stunda slíkar þolköfunaræfingar ef fólk kann ekki vel til verka. Logi segir að það hafi verið annar sundlaugagestur sem fyrst tók eftir manninum og í kjölfarið hafi hefðbundið viðbragðsferli farið af stað.

Manninn þurfti ekki að endurlífga og hann sýndi viðbrögð, og byrjaði að kasta upp, um leið og honum hafði verið komið upp á sundlaugarbakkann. Þá segir Logi að síðast hafi hann heyrt af manninum í gærkvöldi og hafi hann þá allur verið farinn að braggast.

Passa sig á köldu pottunum

Spurður hvort fólk þurfi að fara sér hægar þegar hinir nývinsælu köldu pottar eru notaðir svarar Logi: „Ef maður er lengi í köldu pottunum hægist á allri líkamsstarfsemi og í því eins og öðru þarf að passa sig.“

Þá bendir hann á mikilvægi þess að aðrir sundlaugargestir séu vakandi og nefnir að í gærkvöldi hafi athygli gesta verið ómetanleg. „Það hefur margoft sannað sig að auka-laugarverðirnir okkar eru gestirnir í lauginni. Svo tekur okkar fólk með sinni þjálfun við, endurlífgun og slíku, ef þess þarf.“

Kaldi potturinn í Sundhöllinni er vinsæll eins og á öðrum …
Kaldi potturinn í Sundhöllinni er vinsæll eins og á öðrum stöðum í borginni. Eggert Jóhannesson
Maðurinn fór beint úr kalda pottinum út í laug að …
Maðurinn fór beint úr kalda pottinum út í laug að æfa þolköfun. Eggert Jóhannesson/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert