Fleiri vilja út að borða á Valentínusardaginn

Veitingastaðurinn Essensia er á meðal fjölmargra veitingastaða á landinu sem …
Veitingastaðurinn Essensia er á meðal fjölmargra veitingastaða á landinu sem bjóða upp á sérstakan Valentínusarmatseðil á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi dagur er eins og konudagurinn og bóndadagurinn. Það eru tveggja manna borð út um allt,“ segir Kristján Nói Sæmundsson, veitingastjóri Essensia, og kveður ekki mikið um hópa á veitingastaðnum á Valentínusardaginn.  

Íslenskar blómaverslanir hafi ekki undanfarin ár ekki farið varhluta af auknum áhuga Íslendinga á að halda upp á Valentínusardaginn. Þeir veitingastaðir sem mbl.is ræddi við þekkja líka vel til þess að landinn vilji gera sér dagamun á degi heilags Valentínusar með því að fara út að borða. Það má því búast við að víða verði þétt setið á veitingastöðum landsins á morgun.

Þeir staðir sem mbl.is ræddi við bjóða upp á sérstakan Valentínusarmatseðil í tilefni dagsins og eru hjartalaga pítsur, humar, nautakjöt og súkkulaði meðal þess sem verður á matseðlinum.

„Það eru komnar yfir hundrað bókanir hjá okkur,“ sagði Huld Haraldsdóttir, veitingastjóri á Apótekinu, þegar mbl.is ræddi við hana í morgun. „Þetta er mjög vinsælt og er yfirleitt svona um 200 manna kvöld hjá okkur,“ bætir hún við.

Boðið hefur verið upp á sérstakan Valentínusarmatseðill á Apótekinu frá því staðurinn var fyrst opnaður og eru humar, nautalund og súkkulaðirós meðal þess sem verður á matseðlinum að þessu sinni.

Huld segir vinnu líka lagða í að hafa matseðilinn sem rómantískastan. „Við erum með bæði humar og nautalund og reynum að hafa þetta skemmtilegt fyrir bæði kynin,“ segir hún.

Súkkulaðirós með hindberjahlaupi verður í eftirrétt á Apótekinu.
Súkkulaðirós með hindberjahlaupi verður í eftirrétt á Apótekinu. Ljósmynd/Facebook Apótekið

Mæltist vel að breyta lögun pítsunnar

Kristján Nói segir vinsældir Valentínusardagsins alltaf vera að aukast hér á landi. „Þó að það sé bóndadagur í janúar og konudagurinn sé í næstu viku, þá virðist þetta samt fara vel saman,“ segir hann. „Veitingamenn hafa líka verið að setja upp alls konar matseðla og uppákomur þessu tengt. Að þessu sinni er Valentínusardagurinn líka á fimmtudegi og því gott tækifæri til að lyfta sér upp.“

Líkt og Apótekið er Essensia með sérstakan Valentínusarmatseðil. Hjartalaga humarpítsu, nautacarpaccio og möndlupralín-ís. „Það mæltist mjög vel fyrir í fyrra að breyta lögun pítsunnar, þannig að við ákváðum að endurtaka bara leikinn,“ segir Kristján Nói og kveður gaman að breyta klassísku hringformi pítsunnar.

Hann segir líka orðið þéttbókað á veitingastaðnum annað kvöld. „Þessi dagur er eins og konudagurinn og bóndadagurinn, það eru tveggja manna borð út um allt og ekki mikið um hópa.“  

Hjartalaga pítsan naut mikilla vinsælda í fyrra og því er …
Hjartalaga pítsan naut mikilla vinsælda í fyrra og því er leikurinn endurtekinn í ár. Ljósmynd/Facebook Essensia

Valentínusardagurinn vinsæll hjá Bretum

Á Akureyri býður Múlaberg bar og bistró einnig upp á sérstakan Valentínusarmatseðil og þar eru það humarrisotto, nautalund og súkkulaðimús freista gesta, en matseðillinn verður í boði út helgina.

Birgir Sigþórsson, yfirþjónn á Múlabergi, segir Valentínusardaginn hafa verið ágætan fyrir norðan hingað til. „Núna erum við svo með hóp af Bretum á hótelinu og þeir eru svolítið stórir í Valentínusardeginum,“ segir hann.

Spurður hvort Akureyringar geri mikið af því að fara út af borða á Valentínusardaginn segir hann töluvert um það. „Þeir hafa alltaf verið duglegir að fara út að borða, sérstaklega við tilefni eins og á Valentínusardaginn,“ segir Birgir og kveður stefnu Múlabergs þá að hafa matseðilinn í rómantískari kantinum á þessum degi elskenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert