Mótmæla opinberri einkunnagjöf

Opinber birting niðurstaðna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er gagnrýnd.
Opinber birting niðurstaðna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er gagnrýnd. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök mótmæla því að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur birti opinberlega niðurstöður úr matvælaeftirliti á vefsíðu sinni. Þar eru veitingastaðir flokkaðir á skalanum 0 til 5, með litakóða og broskörlum.

Einstaklingur í matvælarekstri, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði heilbrigðiseftirlitið fara fram með offorsi og að það færi út fyrir valdsvið sitt.

Lög taka ekki gildi fyrr en 2021

Benti hann á að samkvæmt annarri grein laga um matvæli eigi að birta opinberlega upplýsingar um flokkun fyrirtækja eftir frammistöðu þeirra samkvæmt matvælaeftirliti. Önnur greinin taki hins vegar ekki gildi fyrr en 1. janúar 2021.

Enn fremur kemur fram í annarri greininni að ákveðið hafi verið að veita ráðherra svigrúm í lögunum til að ákveða með hvaða hætti frammistöðuflokkun skyldi birt. 

Dæmi um dóm á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar.
Dæmi um dóm á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. Skjáskot/Heilbrigðiseftirlitið

Fram kemur í minnisblaði vegna málsins að það þurfi tíma til að samræma eftirlit betur en nú er gert. Því sé aðlögunarfrestur hugsaður fyrir stjórnkerfið en hann sé ekki síst mikilvægur fyrir fyrirtæki sem hafi þá tækifæri til að laga sig að breyttu verklagi eftirlitsaðila, áður en til birtingar kemur.

Kerfið í Danmörku sagt heppilegra

Einstaklingar með fyrirtæki í matvælarekstri telja að ekki sé heimild fyrir birtingunni en á vefsíðu Reykjavíkurborgar er hægt að skoða stjörnugjöf þeirra staða sem búið er að skoða. Stjörnugjöfin er eins og áður segir frá 0 til 5. 

0: Starfsemi stöðvuð, 1: Starfsemi takmörkuð/stöðvuð að hluta, 2: Frávik/ábendingar - aðkallandi úrbóta þörf, 3: Frávik/ábendingar - ekki metnar alvarlegar, 4: Kröfur uppfylltar - einhverjar ábendingar, 5: Kröfur uppfylltar.

Einstaklingar í matvælaiðnaði vilja að heilbrigðiseftirlitið fari öðruvísi að einkunnargjöf sinni. Bent er á að í Danmörku séu fyrirtæki annaðhvort í lagi eða ekki. Það væri þá skylda að hafa grænan broskall eða rauðan, eftir því sem á við, í glugga fyrirtækja.

Hamborgarabúlla Tómasar í Ofanleiti fær fjórar stjörnur.
Hamborgarabúlla Tómasar í Ofanleiti fær fjórar stjörnur. Skjáskot/Heilbrigðiseftirlitið

Heilbrigðiseftirlitið tjáir sig ekki um málið

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, vildi ekkert tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði viðbragða hennar. 

Í skriflegu svari hennar við fyrirspurn kom fram að Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnurekanda í ferðaþjónustunni og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi kært birtingu gagnanna á netinu, til annars vegar umhverfis- og auðlindaráðuneytis og hins vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. 

Heilbrigðiseftirlitið telji ekki við hæfi að tjá sig um málið fyrr en álit þeirra liggi fyrir.

Uppfært klukkan 16:10:

Samtök Verslunar og þjónustu kannast ekki við að hafa kært einkunnagjöfina en segjast hins vegar hafa gert athugasemdir við hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert