Frekari breytingar ekki í boði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

„Þetta er það svigrúm sem við höfum samkvæmt fjármálaáætlun,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun spurð hvort tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum til þess að liðka fyrir kjarasamningum sem kynntar voru í gær væru lokatilboð stjórnvalda. Verkalýðshreyfingin hefur sagt tillögurnar vonbrigði.

Forsætisráðherra sagði að stjórnarflokkarnir hefðu sammælst um að útfæra þá skattalækkun um á eitt prósentustig, sem kveðið væri á um í stjórnarsáttmálanum, þannig að hún kæmi sér best fyrir tekjulægsta hópinn. „Þannig að við erum að leggja til þriggja þrepa kerfi, sambærilegt að einhverju leyti því sem var hér í tíð vinstristjórnarinnar.“

Spurð um hátekjuskatt sagði Katrín að það hefði alltaf legið fyrir frá því ríkisstjórnin hefði verið mynduð að slíkur skattur yrði ekki settur á. Sagðist hún vilja ítreka að stjórnvöld hefðu verið mjög hreinskilin frá því samtal þeirra við aðila vinnumarkaðarins hófst.

„Það má lesa það út úr fjármálaáætlun og við höfum verið mjög skýr í öllum okkar yfirlýsingum en það breytir því ekki að við viljum auðvitað halda þessu samtali áfram um ýmislegt fleira sem getur orðið til þess að bæta lífskjör í landinu,“ sagði Katrín.

Spurð aftur hvort frekari breytingar á skattkerfinu væru hins vegar ekki í boði sagði hún: „Við kynntum þær í gær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert