Stærsti pakki ríkisstjórnar inn í kjaramál

„Hér er um að ræða 14 milljarða og ég held …
„Hér er um að ræða 14 milljarða og ég held þetta sé afar gott útspil í stöðuna eins og hún er.“ mbl.is/Eggert

„Mér finnst það sem búið er að gera til að stuðla að jöfnuði og bættum kjörum hafi fengið lítið vægi í umræðunni,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, í samtali við mbl.is vegna tillagna sem ríkisstjórnin lagði fram í gær sem innlegg í kjaraviðræður, og viðbrögð verkalýðsins við þeim.

„Ég tel tillögurnar afskaplega góðar og gott innlegg í kjaraviðræðurnar þrátt fyrir þau viðbrögð sem við höfum fengið. Það þarf að skoða þær í heild sinni í stað þess að taka einstaka þætti út fyrir sviga.“

Bjarkey segir áhugavert hvað þættir á borð við lengingu fæðingarorlofs og hækkun á fæðingarorlofsgreiðslum, sem bæti kjör kvenna og fjölskyldufólks, virðist fá lítið vægi í umræðunni. Þá hafi verið farið í aðgerðir vegna félagslegra undirboða og aðgerðir vegna fyrstu íbúðakaupa séu í farvatninu.

Myndu eflaust vilja gera annað og meira

„Ég held þetta sé einn stærsti pakki sem ríkisstjórn hefur lagt fram í kjaramál,“ segir Bjarkey. Auðvitað sé þó ekki verið að semja við ríkið en um sé að ræða innlegg til þess að bæta hag fólks.

Aðspurð hvort henni þyki skattkerfisbreytingarnar, sem kynntar voru í gær, nógu róttækar segir Bjarkey að ef til væri þeim mun meira fjármagn myndi ríkisstjórnin eflaust vilja gera annað og meira. „Hér er um að ræða 14 milljarða og ég held þetta sé afar gott útspil í stöðuna eins og hún er, ofan á annað sem þegar hefur verið gert. Ég styð þetta heilshugar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert