Verkföll líkleg í mars

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, ásamt Drífu Snædal, formanni Alþýðusambands Íslands.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, ásamt Drífu Snædal, formanni Alþýðusambands Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við höfum alltaf sagt það frá upphafi að það sem kæmi frá stjórnvöldum væri lykillinn að því að við gætum náð saman kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Sagði hann aðspurður allt benda til þess að til verkfalla kæmi í næsta mánuði.

Verkalýðshreyfingin hefur lýst miklum vonbrigðum með tillögur ríkisstjórnarinnar að skattkerfisbreytingum sem kynntar voru í gær og ætlað er að liðka fyrir kjarasamningum. Björn sagði tillögurnar ekki að öllu leyti slæmar en það aukna ráðstöfunarfé sem væntingar voru um að tillögurnar skiluðu væri langt undir því sem vonast hafi verið eftir.

„Þetta auðvitað bara þýðir það að það þyngist bara róðurinn gagnvart SA vegna þess að þetta átti að vera til þess að liðka fyrir. Það gerir það ekki eins og við vorum kannski að vonast til. Þá þýðir það bara að við þurfum að snúa okkur enn harðar að SA,“ sagði Björn. Spurður hvort það þýddi verkföll sagði Björn mjög líklegt að til þeirra kæmi í marsmánuði.

Spurður hvort eðlilegt væri að gera kröfu um svo mikla aðkomu stjórnvalda að kjaradeilunni í ljósi þess að viðsemjandinn væri ekki ríkið heldur SA sagði Björn að í öllum þeim kjaradeilum sem hann hefði komið að í gegnum tíðina hefði aðkoma stjórnvalda verið ákveðinn lykill að því að liðka fyrir því að kjarasamningar næðust.

Treyst of mikið á aðkomu stjórnvalda

„Kannski er þetta bara þannig að við erum farin að treysta of mikið á það að ríkið komi inn í þetta,“ sagði Björn. Að sama skapi væru atvinnurekendur líka farnir að treysta of mikið á það og fyrir vikið væri þvermóðska þeirra meiri. Hins vegar lægi það fyrir núna hvað ríkið væri reiðubúið að gera og atvinnurekendur yrðu að koma með það sem vantaði upp á.

Björn sagðist gera ráð fyrir að verkalýðsfélög sem ekki hefðu þegar vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara myndu gera það í vikunni til þess að koma málinu í ákveðinn farveg. Til þess að hægt sé að fara í verkfallsaðgerðir þurfa verkalýðsfélög fyrst að hafa látið reyna á það að ná samningum með milligöngu embættisins.

Aðspurður sagði Björn að bæði gæti komið til skæruverkfalla einstakra hópa eftir mánaðamótin eða verkfalla þar sem allir félagar í viðkomandi verkalýðsfélögum, sem væru að vinna eftir tilteknum kjarasamningi við SA, færu í verkfall. Björn sagðist aðspurður telja að breið samstaða væri innan verkalýðshreyfingarinnar við aðgerðir.

Björn sagði að það sem stæði út af væri launaliðurinn sem hins vegar væri stærsta málið. „Nú hlýtur það að vera bara grimmari krafa. Þetta sem kom um daginn frá Samtökum atvinnulífsins, það var ekki nóg þannig að nú þurfa þeir að sýna einhver önnur spil en það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert