Vildu 15.000 kr. lækkun og fjórða skattþrepið

Drífa segir engan hafa verið að kalla eftir skattalækkun á …
Drífa segir engan hafa verið að kalla eftir skattalækkun á hæstu tekjuhópa. mbl.is/​Hari

„Við hefðum viljað sjá skattkerfinu beitt hressilega sem tekjujöfnunartæki og gerðum okkur væntingar um að það kæmi til skattalækkunar upp á um 15.000 krónur til ákveðinna hópa,“ segir Drífa Snædal, formaður ASÍ, sem lýst hefur yfir miklum vonbrigðum með innlegg stjórnvalda í kjaraviðræður.

Hún segir að töluverð skattatilfærsla hafi verið orðin vegna minnkaðs vægis barna- og vaxtabóta undanfarin ár, þar sem tekjulægsti hluti þjóðarinnar hafi tekið á sig aukna skattbyrði og sá tekjuhæsti lægri.

„Við vildum leiðrétta þetta og fórum því fram með áherslur á fjögur skattþrep, auk þess sem við höfum talað fyrir hækkun á fjármagnstekjuskatti til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum,“ segir Drífa. Fjórða skattþrepið yrði því eins konar hátekjuskattur, líkt og BSRB hefur talað fyrir. „Við erum samstíga BSRB í þessu.“

Aðspurð hversu mikið tillögur stjórnvalda komi til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar segir Drífa þær ná ansi skammt.

Enginn að krefjast skattalækkana á hæstu tekjuhópa

„Þarna er ekki verið að beita tekjujöfnun. Það er sami krónutöluskattaafsláttur fyrir láglaunakonuna og bankaforstjórann, hann fer upp allan stigann. Það er verið að setja töluverðan pening í skattalækkanir á efstu tekjuhópana, sem enginn í samfélaginu er að krefjast,“ segir Drífa.

Þingflokksformaður Vinstri grænna hefur bent á að ýmislegt hafi þegar verið gert til að stuðla að bættum jöfnuði í samfélaginu og að horfa beri á stóru myndina. Drífa segir vissulega margt hafa verið mjög vel gert og margar góðar tillögur liggi frammi, sem við eigum þó eftir að sjá raungerast.

„Í skattkerfinu eru stórir möguleikar til tekjujöfnunar og þessi skattalækkun upp á 6.760 krónur á mánuði sem kemur til framkvæmda á þremur árum, rúmlega 2.000 króna lækkun á ári, er frekar langt frá því sem við höfðum hugsað okkur til þess að koma kjaraviðræðum í gang aftur.“

Segir útreikninga ekki ganga upp

Þá fái ASÍ tölur fjármálaráðuneytisins ekki alveg til að stemma. „Við fáum þetta ekki alveg til þess að stemma, okkur sýnist eins og eigi að frysta upphæð persónuafsláttar,“ segir Drífa um skattatillögurnar.

„Það þarf að svara því í fyrsta lagi hvenær þetta eigi að koma, í hvaða áföngum, og hvort það sé rétt metið hjá okkur. Eina leiðin til þess að við fáum þetta til að ganga upp er að það eigi ekki að breyta persónuafslætti og láta hann rýrna,“ segir hún.

„Ég held að allir hagfræðingar landsins hafi setið yfir þessu í dag og ekki fengið þetta til þess að stemma,“ segir forsetinn sem tekur fram að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvernig stjórnvöld hyggjast hrinda tillögunum í framkvæmd.

„Gallinn er sá að við höfum ekki fengið upplýsingar um nánari útfærslu á þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert