Hagsmuna Íslands ekki gætt

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Valdastaða á íslenskum markaði er drifin áfram að [sic] fjársterkum fyrirtækjum. Við því er ekkert annað svar en samstaða og sókn,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, á Facebook-síðu sinni í dag.

Vísar Haraldur þar til lagafrumvarps sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram þar sem gert er ráð fyrir að frystiskylda á innfluttu kjöti verði afnumin í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar vegna aðildar Íslands að EES-samningnum þess efnis að skyldan brjóti í bága við samninginn.

Bændasamtökin og ýmsir fræðimenn hafa varað við því að frystiskyldan verði afnumin á þeim forsendum að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskan landbúnað og lýðheilsu landsmanna vegna mögulegra búfjársjúkdóma og minnkandi sýklaónæmis.

Haraldur segir að hægt hefði verið að gæta hagsmuna Íslands á fyrri stigum málsins á undanförnum rúmum áratug en það hafi hins vegar ekki verið gert. Fyrir vikið sé ekki annað í stöðunni en að afnema frystiskylduna. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi veitt íslenskum stjórnvöldum tvo mánuði til þess en verða að öðru kosti kærð fyrir samningsbrot.

„Það má kalla okkur lina, kjarklausa og vanmáttuga. En við deilum ekki við dómara. Ég tek undir með þeim sem segja að mögulega muni sagan dæma þetta úrræði illa. Ég óttast það. Fáir skilja betur en ég reiði, vanmátt og hörð viðbrögð bænda við þessari stöðu. Landbúnaður hefur hörfað og gefið eftir,“ segir hann enn fremur.

Haraldur segir að eina svarið nú og sóknarmöguleikinn sé „að lyfta íslenskum búvörum og gera þær að fyrsta kosti allra neytenda. Það er baráttan sem samtök bænda og stjórnvöld eiga að taka saman. Til þess þarf samstillt átak og virkja saman fjölmarga aðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert