Fundurinn mjög upplýsandi fyrir báða aðila

Ragnar Þór segir fulltrúa leigufélagsins hafa sýnt afstöðu stéttarfélagsins skilning.
Ragnar Þór segir fulltrúa leigufélagsins hafa sýnt afstöðu stéttarfélagsins skilning. mbl.is/Hanna

Fulltrúar VR og Almenna leigufélagsins munu funda aftur á mánudag og engin ákvörðun hefur verið tekin um að taka fé VR úr stýringu hjá Kviku banka. Þetta staðfestir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is.

„Þetta var mjög góður fundur þar sem við fórum yfir stöðu leigjenda á leigumarkaði og þá erfiðu stöðu sem við erum í sem stéttarfélag sem þarf að semja um kaup og kjör þegar þau tilboð sem liggja fyrir duga ekki fyrir hækkunum leigufélaganna,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir fulltrúa leigufélagsins hafa sýnt afstöðu stéttarfélagsins skilning. „Ég myndi segja að fundurinn hafi verið mjög upplýsandi fyrir báða aðila. Þetta var lausnamiðaður fundur og við tókum ákvörðun um að hittast aftur á mánudag þegar við erum búin að hugleiða og melta þær hugmyndir sem þar komu fram. Við munum taka afstöðu til málsins eftir þann fund.“

VR sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í vikunni þar sem þess var krafist að áform Almenna leigufélagsins um hækkun leigu yrðu dregin til baka og að öðrum kosti myndi félagið taka allt sitt fé, 4,2 milljarða, úr eignastýringu hjá Kviku banka. Kvika er eig­andi fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins Gamma og Al­menna leigu­fé­lagið er í eigu sjóða Gamma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert