„Óþægileg tilfinning“ um átök

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist hafa „þá óþægilegu tilfinningu“ að það sé sjálfstætt markmið verkalýðsforystunnar að fara í átök.

Þetta kom fram í viðtali við hann í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Bjarni spurði hvaða aðrar ályktanir hann geti dregið þegar niðurstaða margra mánaða viðræðna sé engin.

Hann sagði að allir hafi tekið því fagnandi þegar stjórnvöld settust niður með aðilum vinnumarkaðarins. Margir hafi talað um að tekið hafi verið risastórt skref til að leysa stöðuna á vinnumarkaði.

Ekki væri hægt að velta sökinni á stöðunni sem er uppi núna á skattabreytingatillögur stjórnvalda.

Bjarni sagði undarlegt að heyra eftir fundi forystumanna launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda hjá ríkissáttasemjara að menn séu ósammála um hvað verið var að tala um. Sagði hann það lágmarkskröfu að slíkt sé á hreinu, til dæmis hvort verið sé að gera kröfu um 60 til 85% launahækkanir eða eitthvað annað.

Spurði hann til hvers ríkissáttasemjari væri ef ekki væri hægt að draga þetta fram eftir margra vikna fundi hjá honum.  

Hann bætti því við að eftir að hafa setið með aðilum vinnumarkaðarins á á annan tug funda hafi hann trúað því að unnið væri markvisst við samningaborðið. „Mér finnst það ekki markviss vinna þegar menn tala út og suður um það sem hefur gerst við samningaborðið,“ sagði hann.

Forystufólk VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness á fundi með Samtökum …
Forystufólk VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness á fundi með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þarf stöðugleika fyrir lækkun vaxta

Ráðherrann kvaðst einnig telja mikinn misskilning vera uppi um eðli og efni funda stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins. Hann sagði að einnig hafi verið fundað með sveitarfélögunum til að ræða stóru myndina.

„Við höfum náð stórkostlegum árangri á undanförnum árum,“ sagði hann og bætti við að ráðstöfunartekjur hafi vaxið gríðarlega. Fyrir vikið sagði hann samtalið í hans huga hafa snúist um hvernig sé hægt að verja þessa stöðu.

Rætt var um vexti í þættinum og sagðist Bjarni taka undir að þeir þyrftu að lækka. Forsendan fyrir því sé samt sú að stöðugleiki þurfi að vera í efnahagsmálum.

Hann sagði vexti aldrei hafa verið lægri en í dag og nefndi að ríkið hafi aldrei fengið lægri vexti á verðtryggð lán en núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert