Segist ekki hafa meinað fólki að kjósa

Eflingar-bíllinn fer á milli hótela í dag. Hóteleigandi í Ármúla …
Eflingar-bíllinn fer á milli hótela í dag. Hóteleigandi í Ármúla segist hafa verið ósáttur með það að Efling kæmi ekki á samþykktum tíma og að hann hafi boðið þeim að koma síðar. mbl.is/Hari

„Efling veit það að þau eiga að tala við yfirmann á staðnum um fá fundinn samþykktan. Þau hafa rétt á því að koma á samþykktum tíma á meðan fólkið er í pásu, en það á ekki að draga fólk út á vinnutíma í eitthvert leikrit,“ segir Árni Sólonsson, eigandi og framkvæmdastjóri City Park-hótelsins í Ármúla.

Hann segir að Efling hafi viljað funda með sínu fólki kl. 12 en hann hafi sagt þeim að þau gætu komið aftur við kl. 14. Fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar að yfirmenn á hótelinu hefðu meinað starfsfólki að fara út í Eflingar-bílinn og greiða þar atkvæði.

Haft var eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur að þetta hefði verið ótrúleg sena, en ljóst er að til einhverra orðaskipta kom á milli verkalýðsleiðtogans og hótelrekandans.

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segist í samtali við mbl.is hafa heyrt af því að fólki hefði verið meinað að taka þátt í kosningu. „Það er til háborinnar skammar og við lítum það mjög alvarlegum augum, ef rétt er,“ segir Viðar.

Ekki búið að kynna kosningarnar nægilega

Árni hóteleigandi segir að hann hafi sagt við Eflingarfólk að það gæti komið aftur kl. 14 í dag þegar fólkið væri í pásu. 

„Þá reyndu þau að snúa því upp í það að ég væri að meina fólki að greiða atkvæði. Þá voru þau víst ekki komin hérna til að vera með einhvern fund, heldur til þess að fá atkvæði hjá fólki,“ segir Árni, sem segir einnig af og frá að atkvæðagreiðsla sem fram fer inni í „einhverjum litlum bíl“ geti talist leynileg.

„Það er mjög óeðlilegt að gera þetta svona, sérstaklega vegna þess að það voru tveir tímar síðan kosningin byrjaði og hún stendur fram á fimmtudag. Það er nógur tími. Starfsfólkið er ekki búið að fá neinar skýringar á hvers vegna það er að fara í verkfall eða fyrir hverju það er að berjast, það hefur ekki fengið neinar upplýsingar um það frá þeim [í Eflingu]. Það er alla vega það sem þau segja mér,“ segir Árni.

Starfsfólkið vilji ekki í verkfall

Hann segir flesta ef ekki alla starfsmenn sína hafa sagt sér að þau vilji ekki fara í verkfall og að formanni Eflingar hafi þótt það mjög óeðlilegt, að hann vissi um afstöðu til þeirra til verkfallsaðgerðanna, en samkvæmt Árna munu á bilinu 10-15 manns á City Park-hótelinu leggja niður störf 8. mars ef af aðgerðum Eflingar verður.

„Henni [Sólveigu] fannst mjög óeðlilegt að ég talaði við starfsfólkið mitt greinilega. En auðvitað tala ég við starfsfólkið mitt og ég veit hvað það vill. Ég veit hvað þeim finnst um launin og þeim finnst þau alls ekkert of lág, eru alltaf til í að fá aðeins meira að sjálfsögðu, en þeim þykja kröfurnar algjörlega óeðlilegar,“ segir Árni og segir hann að starfsfólk sitt telji að það græði ekkert á verkfalli, en samkvæmt honum er ræstingafólk á hótelinu almennt með um 420.000 kr. í heildarlaun á mánuði.

„Fólk á að kjósa þegar það vill og þegar það er búið að kynna sér málið. Starfsfólkið mitt ræddi við mig hérna eftir þessa uppákomu og sagði að því liði eins og í gömlu kommúnistastjórninni í Póllandi, þar sem verið var að draga fólk að kjörborðinu til þess að þau myndu kjósa á einhvern ákveðinn hátt. Þeim leið bara eins og þau væru komin til gamla Póllands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert