Hugsanlega var hægt að gera betur

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vandamálið er að við erum að kljást við niðurstöðu dómstóla sem við þurfum að finna leið út úr. Mín afstaða er sú að við eigum að leita allra leiða til að geta varið sérstöðu okkar er varðar það sem ekki tókst í dómsmálinu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag þar sem hann brást við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, um innflutning á hráu kjöti.

Ráðherrann vísaði þar til niðurstöðu bæði EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar um að Íslendingum sé ekki heimilt að banna innflutning á hráu kjöti frá Evrópusambandinu vegna aðildar landsins að EES-samningnum. Fram kom í máli Sigurðar Inga að niðurstaða dómstólanna byggði á því að bannið væri brot gegn ákvæðum samningsins um frjálst flæði varnings. Málið hefur verið harðlega gagnrýnt með vísun í sjúkdómavarnir og lýðheilsu.

Lýðheilsurök ekki upp á pallborð ESB

„Við framsóknarmenn teljum að nauðsynlegt sé að bregðast við af talsverðri hörku í málinu,“ sagði ráðherrann. Hins vegar væri málið í raun tvö mál. Annars vegar skylda stjórnvalda til þess að bregðast við niðurstöðum dómstóla. Þar kæmi til kasta Alþingis að ganga eins langt og hægt væri til þess að tryggja hagsmuni Íslands og sjálfur væri hann reiðubúinn að ganga býsna langt í þeim efnum. Hins vegar snerist málið um lýðheilsu og vörn fyrir íslenskt búfé.

„Hins vegar er málið sem varðar lýðheilsu okkar Íslendinga um þann sjálfstæða rétt okkar að verja einstaka og mjög sérstæða heilsu búfjár og sjúkdómastöðu á Íslandi sem við erum líka með alþjóðlegar skuldbindingar um, bæði um líffræðilegan fjölbreytileika en eins um þá búfjárstofna sem hér búa. Evrópusambandið hefur ekki léð máls á að skilja þann hluta málsins og ég tel að við eigum að taka það upp og gera samhliða,“ sagði Sigurður.

Ráðherra ósammála niðurstöðu dómstóla

Spurður hvort eitthvað hefði verið hægt að gera öðruvísi í þessum efnum til að vernda hagsmuni Íslands betur þegar Sigurður var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árunum 2013-2015 sagði hann svo vera. „Þegar maður lítur í baksýnisspegilinn hefði hugsanlega verið hægt að undirbúa málið enn betur.“ Hann hefði rætt við forystumenn hjá Evrópusambandinu en ekki hafi hins vegar verið hlustað á það fyrir dómstólum.

Málið snerist að mati Evrópusambandsins og dómstóla einfaldlega um frjálst flæði varnings frá ríkjum sambandsins. „Ég er ósammála því að þetta mál sé þannig vaxið. Við þurfum hins vegar að bregðast við hæstaréttardómnum. Það er óhjákvæmilegt og það þurfum við hér í þinginu að gera. Ráðherrann að koma fram með eins öflugt mál og hægt er og við í þinginu að leggjast yfir það að gera það eins vel úr garði og hægt er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert