Verðbólgan gæti farið yfir 4% í lok árs

Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá Íslandsbanka. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
„Verðbólga gæti farið yfir fjögur prósentustig á síðari helmingi ársins ef allir hópar með lausa samninga fá verulegar launahækkanir.“Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Tilefnið er samtal við Vilhjálm Egilsson, fv. framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, hér í blaðinu í gær. Telur Vilhjálmur að ný forysta verkalýðshreyfingarinnar hafi lagt markmið um stöðugleika til hliðar. Jón Bjarki segir aðspurður að stöðugleikinn hafi fengið takmarkað vægi í umræðunni.

„Það er áhyggjuefni hversu lítið er gert með áhrif umfangsmikilla launahækkana á stöðugleika og hættuna á því að við förum í gamalkunna víxlverkun óhóflegra launahækkana, verðbólguþrýstings og gengisveikingar. Ef það verður ekki sátt um að umfangsmestu launahækkanirnar miðist við þá sem lægst hafa launin verður verðbólga væntanlega talsvert meiri en við erum að spá. Þ.e.a.s. ef laun myndu almennt hækka í einhverjum viðlíka takti og lægstu launin, eins og dæmi eru um úr fyrri kjarasamningum,“ segir Jón Bjarki.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann aðspurður að Greining Íslandsbanka reikni með því í verðbólguspá sinni að laun hækki hlutfallslega mest hjá þeim sem lægst hafa launin. Það sé innbyggt í spána að ekki verði verulegar launahækkanir hjá þeim sem eru hærra í launastiganum. Gert sé ráð fyrir 5,5-6% nafnlaunahækkun í ár. Samkvæmt spánni verði verðbólgan um 3,5% frá miðju þessu ári og fram á næsta ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert