56 missa vinnuna hjá Ístaki

Allt stefnir í að margir missi vinnu sína hjá Ístaki.
Allt stefnir í að margir missi vinnu sína hjá Ístaki. mbl.is/Árni Sæberg

Byggingafyrirtækið Ístak hefur sagt upp 31 fastráðnum starfsmanni. Auk þess hefur verið tekin ákvörðun um að endurnýja ekki samning um þjónustu 25 starfsmanna sem sinnt hafa verkefnum á vettvangi fyrirtækisins fyrir tilstuðlan starfsmannaleigu sem Ístak hefur átt samstarf við.

Karl Andreassen, forstjóri fyrirtækisins, segir að nú þegar sjái undir lok þriggja stórra uppsteypuverkefna hjá fyrirtækinu sé óvíst hvort verkefnastaðan leyfi þann starfsmannafjölda sem fyrirtækið hefur byggt starfsemina á.

„Við vonumst að sjálfsögðu til að geta dregið megnið af þessum uppsögnum til baka þegar og ef verkefni sem við höfum verið lægstbjóðendur í, verða samþykkt og sett í gang.“

Karl segir að fyrirtækið hafi sett sig í samband við Vinnumálastofnun vegna uppsagnanna en einnig stéttarfélagið Eflingu, en flestir þeir sem ákvörðunin snertir eru félagsmenn þar. Hann segir að viðbrögð starfsmanns félagsins veki mikla furðu.

„Þegar við tilkynntum félaginu þetta var okkur gerð grein fyrir því að þessi ákvörðun kynni að valda því að verkfallsaðgerðum yrði beitt gegn Ístaki. Það er ótrúlegt að þetta skuli vera viðbrögðin þegar við tilkynnum þessa mjög þungbæru ákvörðun, sem enginn tekur létt,“ segir Karl.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag hafnar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, því að fyrirtækinu hafi verið hótað en bendir á að félagið sé ekki undir því sem hún nefnir „friðarskyldu“ um þessar mundir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert