Fagnar 20 ára edrú afmæli  

Hjónin Bjarni Hafþór Helgason og Ingunn Wernersdóttir hér saman á …
Hjónin Bjarni Hafþór Helgason og Ingunn Wernersdóttir hér saman á síðasti ári í útgáfuteiti Ragnars Jónassonar. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Í vikunni birti lagahöfundurinn og fyrrverandi fjölmiðlamaðurinn Bjarni Hafþór Helgason status á Facebook um að hann ætti 20 ára edrúafmæli. Hann var á línunni í síðdegisþætti K100 af því tilefni.

„V“ in þrjú

Hann deildi því með hlustendum að hann hafi eitt sinn búið til slagorð um hið þrefalda vaff; „VVV” sem hann segir standa fyrir „Vín veldur vandræðum“. Hann segir oft rætt um hvað alkóhólismi sé í raun. Er þetta sjúkdómur og þá hvernig; félagslegur, líkamlegur, andlegur? Hvenær veit ég að ég er alki? Hvað þarf ég að drekka oft og hve mikið? „Það er vissulega mikill munur á að drekka einn bjór eða tólf bjóra, en það er himinn og haf á milli þess að drekka einn bjór og engan bjór,“ útskýrir Bjarni Hafþór.

Alkóhólismi er alls konar

Hann segir alls kyns umræðu í gangi um hvað alkóhólismi er og hann hafi með status sínum viljað hreinsa alla þá umræðu út af borðinu. „Því ef vín veldur vandræðum, endurtekið, þá er alkóhólismi á ferðinni. Og þá skiptir engu máli hverslags vandinn er,“ útskýrir Bjarni Hafþór. „Og ef það er ekki hægt að venja sig af þessu eftir umkvartanir annarra, eða maður er að missa út sér eitthvað sem maður myndi annars ekki vilja segja, þá eru þetta orðnar aðstæður sem maður þarf að koma sér út úr,“ segir hann.  

Tilbúinn að hætta og vera í fýlu

„Ég var tilbúinn að hætta og vera í fýlu yfir því að drekka ekki,“ segir hann. En svo fór hann á jákvæðum nótum í gegnum meðferð og í dag segist hann alsæll með þessa ákvörðun. Hann var ekki í samfelldri drykkju á sínum tíma en þar sem mikill alkóhólismi er í fjölskyldunni ákvað hann að hætta áður en allt stefndi í voða. Hann mætir reglulega á AA-fundi og segir það lykilatriði, því ef of langt líði á milli funda þá verði hann pirraður og því finni hann hvernig fundurnir gegna mikilvægu hlutverki í því að halda fókus og vera á jákvæðari nótum í lífinu.

Fer með möntru

Bjarni Hafþór segist verulega þakklátur SÁÁ, AA og mörgum einstaklingum því það er gott að þiggja hjálp og fylgja ráðleggingum. Hann segist stundum spjalla við sjálfa sig og fer hann gjarnan með ákveðna möntru til að styrkja ákvörðun sína: „Ég hef ekki drukkið áfengi í 20 ár, hef ekki reykt í 19 ár og ekki drukkið kaffi í 14 ár.“

Og þá getur varla mikið verið eftir, segir hann, enda grínist vinur hans með að hann sé krónískur "quitter" eða sá sem er alltaf að hætta einhverju. En á hann þá eftir að hætta fleiri ósiðum eða öðru hátterni? Hann segist góður almennt með líf sitt, en hann segist jafnframt til í að minnka sykurneysluna. Bjarni Hafþór fagnaði deginum með því að fara út að borða með fjölskyldunni, alsæll með lífið og tilveruna.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert