Leggja til umfangsmikil verkföll

Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness hafa boðað umfangsmiklar verkfallsaðgerðir, en …
Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness hafa boðað umfangsmiklar verkfallsaðgerðir, en félagsmenn eiga eftir að grieða atkvæði um tillögurnar um vinnustöðvun. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirhuguð verkföll Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness munu ná hið minnsta til 40 fyrirtækja í hótel- og gistingarekstri, auk hópbifreiðafyrirtækja. Aðeins þeir sem verkföllin ná til munu greiða atkvæði um tillögur félaganna um vinnustöðvun, sem er önnur aðferð en Efling valdi síðast.

Verkfallsaðgerðir Eflingar hafa verið útlistaðar á vef félagsins og munu hafa áhrif á starfsemi fyrirtækja sem bjóða gistingu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Þá munu aðgerðir félagsins er snúa að hópbifreiðafyrirtækjum sérstaklega beinast að starfsemi Kynnisferða.

Efling fer fram á að þegar um takmarkaða vinnustöðvun er að ræða greiði atvinnurekendur full laun þrátt fyrir aðgerðir sem takmarka störf starfsmanna.

Verkfallsaðgerðir Eflingar eru samkvæmt tillögunum tvískiptar. Annars vegar er um að ræða fulla vinnustöðvun og er lagt upp með að félagsmenn leggi niður störf að fullu í einn sólarhring þann 22. mars, tvo sólarhringa þann 28. mars og þrjá sólarhringa 3., 9., 15. og 23. apríl. Að lokum ótímabundin vinnustöðvun frá 1. maí. Og hins vegar takmarkörkun á starfskyldum starfsmanna aðra daga, að því er fram kemur í vinnustöðvunartillögum Eflingar.

Krafist 20% þátttöku

Atkvæðagreiðsla um tillögurnar verður á næstu dögum og kemur fram á vefum Eflingar og VR að aðeins þeir sem verkföllin ná til munu vera á kjörskrá. Þá er vísað til annarrar málsgreinar 15. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Það ákvæði krefst þátttöku fimmtungs á kjörskrá til þess að verkfall geti öðlast samþykki.

Aðeins 11% á kjörskrá greiddu atkvæði vegna verkfalls Eflingar sem boðað er 8. mars. Samtök atvinnulífsins hafa kært framkvæmd þeirrar atkvæðagreiðslu fyrir félagsdómi.

Takmarka starfsumfang á hótelum

Utan þeirra daga sem tilgreindir eru sem snúa að því að leggja niður störf að fullu á ákveðnum dögum munu vera í gildi takmarkanir á umfangi verkefna félagsmanna Eflingar sem starfa á 40 hótelum.

Þann 18. mars verður starfsfólki óheimilt að framkvæma verkefni sem ekki eru tilgreind í starfslýsingu og verður slík takmörkun í gildi til 21. mars. Frá 23. sama mánaðar til 27. taka sömu takmarkanir gildi að viðbættu banni við að þrífa salerni og sameiginleg rými.

Þá verður umfang starfs takmarkað á ný sem fyrr segir 30. mars til 22. apríl, en við bætist bann við að starfsmenn sinni morgunverði gesta og að herbergi verða aðeins þrifin þegar gestir hafa verið útritaðir.

Umfang starfs verður síðan takmarkað aftur 26. apríl til 30. apríl. Verða allar fyrri takmarkanir í gildi auk þess að starfsmönnum verður óheimilt að annast þvott.

„Starfsmönnum sem vinnustöðvunin tekur til er áskilinn fullur réttur til greiðslu launa fyrir störf sín utan ofangreindrar vinnustöðvunar og fyrir störf sem kann að vera bætt við starfsskyldur þeirra í stað þeirra sem vinnustöðvunin tekur til,“ segir í tillögu Eflingar.

Beina spjótum að Kynnisferðum

Umfangsmiklar takmarkanir verða á verkefnum bílstjóra og annarra félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Almenningsvögnum Kynnisferð ehf. utan þeirra daga sem miðað er við fulla vinnustöðvun.

Frá og með 18. mars verður hópbifreiðastjórum og öðrum félagsmönnum Eflingar gert að „hliðra til reglubundnum störfum sínum eftir því sem þörf krefur til að þeim sé unnt að dreifa kynningarefni.“ Á sama tíma verður bilstjórum bannað að annast eftirlit með greiðslu fargjalds.

Þá verður bílstjórum skylt að stöðva bifreið á stoppistöð í fimm mínútur dag hvern klukkan fjögur og verður bannað að þrífa bifreiðar að utanverðu frá 23. til 29. mars.

Þann 1. apríl til 1. maí er fyrirhugað að öll vinna verði lögð niður milli klukkan sjö og níu að morgni og milli klukkan fjögur og sex síðdegis. Tillaga Eflingar leggur einnig til að frá 15. apríl og í ótilgreinds tíma munu þessir starfsmenn ekki sinna þrif bifreiða að utan sem og innan, dæla eldsneyti á bifreiðar eða leggja bifreiðar í stæði.

Hópbifreiðastjórar skoði ekki farmiða

Efling leggur einnig fram tvær tillögur sem ná til hópbifreiðastjóra almennt, þó ekki til þeirra sem sinna áætlunarferðum innanbæjar undir nafni Strætó BS.

Auk þeirra aðgerða sem miða af fullri vinnustöðvun verður bilstjórum meinað að sinna öðrum verkefnum en er lýst í starfslýsingu frá 18. til 21. mars. Auk þess verður honum bannað að skoða farmiða og fara yfir farþegalista milli 23. og 27. mars.

Þá er gert ráð fyrir að hópbifreiðastjórar mæti ekki til vinnu fyrr en klukkan 12 á hádegi auk fyrrnefndra takmarkana frá 30. mars til 2. apríl. sömu takmarkanir verða síðan 6. til 8. apríl, 12. til 14. apríl, 18. til 22. apríl og 26. til 30. apríl.

VLFA í allsherjarverkfall

Verkalýðsfélag Akraness er með nokkuð einfaldari útfærslu á tillögu að vinnustöðvun sinni, en hún gerir ráð fyrir verkfalli allra félagsmanna sem heyra undir samning félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna veitingaþjónustu, gistiþjónustu, greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

Verði tillagan samþykkt af félagsmönnum leggja þeir niðurstörf frá og með 12. apríl.

Tillögur Eflingar:




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert