Mikil vitundarvakning á Íslandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er þeirrar skoðunar, og hef oft sagt, að loftlagsmálin séu stærsta áskorun 21. aldarinnar. Þetta er stærsta verkefni mannkyns hreinlega held ég á okkar tímum. Og það er alltaf að verða viðurkenndara og viðurkenndara að svo sé,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í setningarræðu sem hann flutti á ráðstefna verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands um loftslagsmál sem nú stendur yfir.

Ráðherrann sagði að þrátt fyrir að meira þyrfti til á alþjóðavettvangi til þess að takast á við loflagsbreytingar og stór ríki eins og Bandaríkin og Brasilía væru að draga sig út úr samstarfi í þeim efnum þá væru líka jákvæð teikn á lofti. Mörg ríki væru til að mynda að staka höndum um að setja sér metnaðarfyllri markmið en kveðið væri á um Parísarsamkomulaginu um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum og Ísland væri þar á meðal.

Mikilvægt að fylgja Evrópusambandinu

„Við Íslendingar erum núna ásamt Norðmönnum að fara að ganga frá samkomulagi við Evrópusambandið um að fylgja þeim í þeirra málum þegar kemur að loftlagsmálum. Það er að segja að taka þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030 ásamt Evrópuríkjum. Það þýðir það að okkur verður úthlutað einhverju ákveðnu takmarki.“

Þetta takmark yrði 29% en það þýddi hins vegar ekki að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að gera betur en það. „Ég tek mjög mikilvægt að við séum í þessum samfloti með Evrópusambandinu. Einfaldlega vegna þess að þar eru metnaðarfyllstu aðgerðirnar að eiga sér stað, þar og það má segja kannski í Noregi og nokkrum öðrum ríkjum að sjálfsögðu, en við eigum að fylgja þeim svo við eigum auðveldara með að standa í lappirnar á þessum vettvangi.“

„Ég er ánægður með að sjá þetta gerast“

Guðmundur sagði að gríðarleg vitundarvakning hefði orðið á Íslandi í loftlagsmálum á tiltölulega stuttum tíma. Fyrir áratug hafi umræðan hér á landi snúist um það hvort fólk tryði eða tryði ekki á loftlagsbreytingar. „Ég er svo ánægður með að sjá þetta gerast.“ Fjölmiðlar hefðu til að mynda fjallar miklu meira um málaflokkinn og sagðist hann vilja hrósa þeim.

Skoðanakannanir sýndu að meirihluti almennings teldi mikilvægt að bregðast við loftlagsbreytingum og að stjórnvöld ættu að gera meira í málaflokknum. Stjórnvöld hefðu sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. „Það tel ég hvoru tveggja mjög mikilvæg markmið sem að við vinnum ótrauð að.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert