WOW air fær mánaðarfrest

WOW air fékk mánaðarfrest til að ganga frá samningum.
WOW air fékk mánaðarfrest til að ganga frá samningum. mbl.is/Árni Sæberg

Undir miðnætti í gærkvöldi barst tilkynning frá WOW air þess efnis að þótt félagið hefði ekki náð samkomulagi við Indigo Partners um fjárfestingu þess síðarnefnda í WOW air, hefði verið ákveðið að halda vinnu í samkomulagsátt áfram til 29. mars. Felur það í sér mánaðar framlengingu á fyrra samkomulagi.

Heimildir Morgunblaðsins herma að WOW air hafi óskað eftir því við eigendur skuldabréfa á hendur félaginu að þeir samþykktu, til eins mánaðar, að viðhalda þeim breytingum sem fallist hafði verið á að gerðar yrðu á skuldabréfaútgáfunni við aðkomu Indigo Partners að félaginu.

WOW air greiddi starfsfólki sínu ekki út laun í gær, á síðasta degi nýliðins mánaðar, en félagið hefur haft þann háttinn á undanfarin misseri að greiða út laun á þeim degi þótt kjarasamningur kveði ekki á um að það þurfi að gera fyrr en fyrsta dag hvers mánaðar.

Mannauðsstjóri félagsins sendi starfsfólki orðsendingu þar sem sagði m.a.: „Því miður náðum við ekki að klára launavinnsluna í dag og borga út launin. Laun verða því greidd út á morgun.“ Morgunblaðið leitaði skýringa á því hvað hefði orðið þess valdandi að ekki var hægt að ljúka við launavinnsluna en félagið brást ekki við fyrirspurn blaðsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stranda viðræðurnar milli WOW air og Indigo Partners á ágreiningi um hver endanleg eignarhlutdeild Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW air, verði í félaginu þegar upp verður staðið. Þá munu samningsaðilar einnig vinna að því að koma skikki á með hvaða hætti framtíðarskipulagi félagsins og áherslum verði háttað. Indigo Partners hefur gefið það út að það sé reiðubúið að fjárfesta allt að 75 milljónir dollara, jafnvirði um 9 milljarða íslenskra króna í WOW air. Hins vegar mun fjárfestingin fyrst í stað felast í formi lánveitingar til allt að tíu ára með breytirétti í hlutafé. Íslensk löggjöf kemur hins vegar í veg fyrir að Indigo Partners eignist meirihluta í félaginu þar sem það er ekki í eigu aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Bréf Icelandair Group hækkuðu um 7,5% í hundraða milljóna viðskiptum í Kauphöll Íslands í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert