Hópum beint til erlends rútufyrirtækis

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæmi er um að vegna yfirvofandi verkfalla sem beint er gegn íslenskum hópferðafyrirtækjum hafi erlend ferðaþjónustufyrirtæki fært hópa viðskiptavina sinna til erlends fyrirtækis sem sinnir slíkri starfsemi hér á landi yfir sumartímann og stundar félagsleg undirboð og áhöld eru um hvort greiði skatta til samfélagsins. 

Þetta kom fram í máli Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, í Vikulokunum á Rás 1 í dag þar sem kjaraviðræður og yfirvofandi verkfallsaðgerðir voru meðal annars til umræðu. Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness boðuðu í gær frekari verkfallsaðgerðir sem atkvæði verða greidd um í næstu viku og munu ná til hópferðafyrirtækja og hótela verði þær samþykktar.

Hamfarir yfirvofandi í keðjunni allri

Jóhannes sagði að vegna verkfallsboðana væru yfirvofandi hreinar hamfarir hjá ferðaþjónustunni, ekki aðeins hjá þeim fyrirtækjum sem aðgerðir beindust gegn, heldur allri keðju ferðaþjónustufyrirtækja. 

„Það sem við horfum á framundan í ferðaþjónustunni eftir boðun þessara aðgerðaáætlana er óhætt að kalla hamfarir. Þegar við horfum fram á fjórar vikur þar sem í raun er ekki hægt að veita eðlilega þjónustu sem er verið að reyna að selja eða er búið að selja upp á einn einasta dag, þá er það stórkostlegt vandamál fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni, ekki bara þessi fyrirtæki sem verða beinlínis fyrir verkfallsboðunum,“ sagði Jóhannes og nefndi að ferðaþjónustuiðnaðurinn í heild sinni væri þéttofin keðja.

„Ferðamenn verða ekki til á gólfinu fyrir framan lobbý-deskið. Þeir eru að ákveða það núna á bókunartímabili fyrir sumarið hvort þeir ætla að koma til Íslands og hvað þeir ætla að gera á Íslandi. Ef þeir eru búnir að bóka sér ferð og mæta síðan, þá eru þeir ekki bara að koma til að vera í fimm nætur á hóteli í Reykjavík, heldur til að fara út á land, fara upp á jökul, í hestaferðir og kaupa sér afþreyingu. Öll þessi keðja riðlast,“ sagði hann.

Beina viðskiptum sínum til vafasamra fyrirtækja

Jóhannes sagði að þegar væri farið að bera á vandamálum vegna verkfallsboðananna.

„Strax morguninn eftir að boðað var til aðgerðanna 8. mars, þá byrjuðu okkar viðskiptamenn erlendis að spyrja hvað þeir ættu að gera við kúnnana sína. Það er því miður afskaplega lítið sem er hægt að gera í þessum tilfellum,“ sagði hann. Fyrirtækin væru strax farin að verða fyrir mjög miklu fjárhagslegu tjóni.

„Ég get nefnt dæmi um erlenda ferðaskrifstofu sem ég frétti af fyrir nokkrum dögum síðan. Hún hefur verið að koma með um hundrað hópa yfir sumarið í hópferðir í gegnum íslenskt hópferðafyrirtæki, eitt þeirra væntanlega sem verður fyrir þessu. Þessi aðili er búinn að færa helminginn af hópunum yfir til erlends fyrirtækis sem er að vinna á Íslandi á sumrin með rútur og eru áhöld um hvort sé að skila sköttum til samfélagsins, er með félagsleg undirboð gagnvart starfsfólki, borgar ekki eftir íslenskum kjarasamningum o.s.frv.“ sagði Jóhannes.

„Þetta er bæði fjárhagslegt tjón fyrir það hópferðafyrirtæki hér á landi sem er félagsmaður hjá okkur og ekki síður tjón fyrir starfsfólk þeirra fyrirtækja sem við höfum í sameiningu verið að reyna að vinna gegn,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert