Sama upplifun og í Icesave-málinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í Þingvöllum í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í Þingvöllum í dag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að annaðhvort hafi ríkisstjórnin ákveðið að gefa eftir í samskiptum við erlenda kröfuhafa eða farið fram með „embættismannafrumvarp“ þegar samþykkt var frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra, um meðferð krónu­eigna sem háðar eru sér­stök­um tak­mörk­un­um og gjald­eyr­is­mál, í vikunni. Þetta sagði hann í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun.

Frum­varpið snerist í meg­in­at­riðum um hvort af­l­andskrónu­eig­end­um yrði heim­ilt að fjár­festa í inni­stæðubréf­um Seðlabank­ans í stað þess að setja féð ein­göngu inn á bund­inn reikn­ing.

Þingmenn Miðflokksins sögðu að með frumvarpinu, sem fæli í sér einhliða afléttingu fjármagnshafta, færu hagsmunir þjóðarinnar forgörðum, milljarðar króna. Lögðust þeir einir gegn frumvarpinu og ræddu það fram á rauðanótt í vikunni. Þingflokkurinn stækkaði nýverið þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins, gengu til liðs við Miðflokkinn.

„Ætti ekki að koma á óvart“

Sigmundur Davíð sagði að það ætti ekki að koma á óvart að Miðflokkurinn gerði mál úr frumvarpinu.

„Ég er búinn að fjalla mikið um þetta undanfarin ár og þegar ég steig til hliðar sem forsætisráðherra gerði ég það til að restin af ríkisstjórninni fengi frið til að klára einmitt þessi mál því þau væru það mikilvæg fyrir samfélagið,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Planið frá 2015 hafði gengið fullkomlega eftir og skilað ótrúlegum efnahagslegum viðsnúningi. Þetta voru 1.200 milljarðar sem menn óttuðust að rynnu hér úr landi og gætu sett efnahagskerfið á hliðina. Meirihlutinn af því, þrír fjórðu, var afgreiddur með slitabúunum sem afhentu meira en helminginn af þessum eignum ríkinu. Ekkert slíkt hefur gerst áður. Menn voru látnir fallast á það að afhenda þessar eignir ríkinu,“ sagði Sigmundur Davíð og benti á að stjórnvöld hefðu á sínum tíma sýnt að þeim væri alvara og þau myndu fylgja málinu eftir til enda.

„Það fylgdi líka sögunni að eitt yrði látið yfir alla ganga. Sá fjórðungur sem var eftir, þessar aflandskrónur, átti að sæta sams konar skilyrðum, m.ö.o. að menn þyrftu að greiða ákveðið framlag til að geta losað þetta fjármagn úr landi,“ sagði Sigmundur Davíð. „Strax árið 2016 var farið að draga í land með upphaflega stefnu og farið að semja,“ bætti hann við, en þó hefðu viðkomandi aðilar þurft að greiða verulegt gjald.

Slæmt fordæmi fyrir stjórnvöld

Sigmundur sagði að nú hefðu stjórnvöld ákveðið að gefa enn frekar eftir og þeir sem síst af öllum hefðu verið tilbúnir til samstarfs, eigendur 84 milljarða sem eftir standa, ættu nú að fá sitt að fullu.

„Þetta er slæmt fordæmi fyrir stjórnvöld að gefa, því árangurinn í stóru aðgerðunum byggðist á því að menn tryðu að okkur væri alvara. Nú segja menn að það sé hægt að brjóta okkur á bak aftur,“ sagði Sigmundur. Með þessu yrði ríkið af um 30 milljörðum króna.

Björt Ólafsdóttir spurði Sigmund Davíð hvort þeir sem upphaflega greiddu gjald fyrir krónur sínar gætu heimt sitt gjald til baka í ljósi þess að jafnræðis hafi ekki verið gætt.

„Það er stór hluti af þessu, þetta með jafnræðið. Ef menn hefðu á sínum tíma ekki trúað stjórnvöldum og talið að hægt væri að bíða bara í þrjú ár og fá þá greitt að fullu, þá hefði enginn tekið þátt í neinu af þessu og þá sætum við föst í sömu sporum. Þeir aðilar, einhverjir alla vega, telja að þeir hefðu átt að gera það sama og bíða bara,“ sagði hann.

Björt ítrekaði spurninguna og spurði hvort stjórnvöldu gætu fengið þá kröfuhafa í bakið sem hefðu upphaflega fallist á áætlun stjórnvalda.

„Ég ætla að vona ekki, en liður í því að koma í veg fyrir slíkt var að tryggja jafnræði sem hefur ekki verið fylgt eftir. En vonandi sleppur það,“ sagði Sigmundur Davíð.

Þingið hafi gleypt við „embættismannafrumvarpi“

Sigmundur sagði að málflutningur þingmanna þeirra sem stutt hefðu frumvarpið hefði m.a. snúist um að menn hefðu „ekki viljað hafa þetta hangandi yfir sér“ og að „það væri svo lítið eftir“. 

„Þetta eru gamalkunnug viðbrögð úr fyrri deilum. Málflutningurinn var ekki pólitískur að öðru leyti en því að þetta var bara embættismannafrumvarp sem þingmennirnir létu segja sér að væri gott og gilt,“ sagði Sigmundur Davíð.

Björt spurði hvort Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði að hans mati ekki haft stefnu um málið og látið ráðuneytið um að leysa málið.

„Annað af tvennu gerðist og byrjaði að gerast sumarið 2016. Annaðhvort var tekin upp sú pólitíska stefna að gefa eftir eða hitt, að stjórnvöld nenntu þessu ekki lengur, ákváðu að láta kerfið um þetta og kerfið fór á sína náttúrulegu stillingu sem er hin varfærna nálgun [...],“ sagði hann.

„Ég vona eiginlega ríkisstjórnarinnar vegna að þetta hafi ekki verið pólitísk stefna, heldur hafi hún bara ekki sinnt þessu. Það er það sem gerist þegar maður fær kerfisríkisstjórn, ríkisstjórn sem er ekki með sterka pólitíska sýn. Hún er ekki með sterka stefnu, heldur gekk út á það að skipta á milli sín stólum hjá mjög ólíkum flokkum og bæla niður stefnumál samstarfsflokkanna í staðinn fyrir að berjast fyrir sameiginlegri stefnu og sameiginlegri sýn,“ sagði Sigmundur Davíð.

Stundum þurfi að láta ausa yfir sig skömmum

Björt bar málið saman við Icesave-deiluna þar sem Sigmundur Davíð beitti sér í fararbroddi InDefence-hópsins fyrir því að fyrri áformum stjórnvalda yrði hafnað. Spurði hún hvort hann vonaðist til þess að geta haft rétt fyrir sér þegar upp væri staðið þótt Miðflokkurinn stæði einn í andstöðu nú. Sigmundur Davíð sagði að málin væru ólík, m.a. vegna efnahagslegrar stærðar Icesave-málsins.

„En ég upplifi akkúrat það sama og þegar maður var að byrja að tala um Icesave. Fólk upplifði það sem vesen. [...] Framan af fannst fólki það skrýtið. Þingið væri að vinna að mikilvægum málum og við værum að stöðva þingið og þetta mál. Málið var enda flókið og það sama á við um þessi stóru efnahagslegu mál sem við höfum verið að fást við. Fyrir vikið hefur maður lært af reynslunni að maður þarf stundum að láta ausa yfir sig skömmum í einhvern tíma með þeirri von að með aukinni umræðu og þegar menn setji sig inn í málin, þá öðlist þeir skilning á þeim,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert