Kallar eftir afsögn seðlabankastjóra

Þorsteinn Sæmundsson kallaði eftir því úr ræðustóli Alþingis að Már …
Þorsteinn Sæmundsson kallaði eftir því úr ræðustóli Alþingis að Már Guðmundsson seðlabankastjóri og „hans nánustu samstarfsmenn“ létu þegar af störfum. mbl.is/Hari

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, kallaði eftir því úr ræðustóli Alþingis nú síðdegis að Már Guðmundsson seðlabankastjóri og „hans nánustu samstarfsmenn“ létu þegar af störfum.

Umboðsmaður Alþingis var harðorður á fundi með nefndinni í morg­un, er hann ræddi um þá ákvörðun gjald­eyris­eft­ir­lits Seðlabanka Íslands að beita stjórn­valds­sekt­um á hend­ur Sam­herja hf. árið 2016, þrátt fyr­ir að rík­is­sak­sókn­ari hefði áður komið þeirri af­stöðu á fram­færi við Seðlabank­ann, þegar árið 2014, að ekki væru laga­heim­ild­ir til staðar fyr­ir þeim aðgerðum.

Þorsteinn segir að seðlabankastjóra og hans nánustu samstarfsmönnum sé ekki sætt vegna þessa og þess, sem umboðsmaður gagnrýndi einnig, að seðlabankastjóri hefði með ummælum sínum um Samherja-málið látið að því liggja að þrátt fyr­ir að málið hefði verið látið niður falla væri ekki þar með sagt að rann­sókn­in hafi verið til­hæfu­laus.

„Það er alveg með ólíkindum hvernig seðlabankastjóri og Seðlabankinn hefur farið fram í þessu máli og ég sé ekki annan kost vænlegan fyrir þá sem þarna eiga hlut að máli innan Seðlabankans, en að þeir láti þegar af störfum, það er að segja seðlabankastjóri og hans nánustu samstarfsmenn. Þeim er ekki sætt eftir þessa framgöngu sem að þeir hafa sýnt hér og hafa ekki hlutast á nokkurn mann og ekki orðið við nokkrum ábendingum eða tilmælum,“ sagði þingmaðurinn.

Frá fundi nefndarinnar í morgun.
Frá fundi nefndarinnar í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert