Kaupmenn fagna innflutningsfrumvarpi

Í samráðsgátt stjórnvalda mótmælir fjöldi manna þeim áformum að afnema …
Í samráðsgátt stjórnvalda mótmælir fjöldi manna þeim áformum að afnema frystiskyldu á innfluttu kjöti frá Evrópu. Aðrir fagna hugmyndinni. mbl.is/RAX

Allskiptar skoðanir eru á frumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um breytingu á lögum um matvæli, sem fela í sér að heimilaður sé innflutningur á ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og hráum eggjum til landsins frá EES-ríkjum.

70 umsagnir um frumvarpið bárust fyrir frest inn í samráðsgátt stjórnvalda. Í sama frumvarpi eru lagðar til breytingar á þrennum lögum og ásamt nefndum lögum um matvæli eru einnig til umsagnar breyting á lögum um dýrasjúkdóma og breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Langflestar umsagnir inni í gáttinni snúa að breytingunni á lögunum um innflutning matvæla. Er sú fyrirhugaða breyting harðlega gagnrýnd af ýmsum hagsmunaaðilum, jafnt almennum borgurum sem bændum. „Við mótmælum því harðlega að stjórnvöld gangi jafn augljóslega erinda fjársterkra stórkaupmanna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar,“ segir Kári nokkur og við sama tón kveður hjá flestum óbreyttum bændum sem skila inn umsögn.

Þau félagasamtök sem leggjast gegn frumvarpinu um innflutning benda flest á þá hættu sem það kann að fela í sér fyrir búfjárstofna íslenska að flutt sé inn ófryst kjöt að utan. Í sömu mund er gagnrýnt að mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin boðar til að varna þessari hættu séu ekki langt á veg komnar í skipulagningu.

Yfirvöld sögð ganga erinda kaupmanna

Fjöldi samtaka leggst gegn frumvarpinu. Í gáttinni er ein sameiginleg umsögn frá tugum formanna í félagasamtökum bænda þar sem lagst er alfarið gegn frumvarpinu um innflutninginn og það sagt „fullkomin uppgjöf“. Fjöldi annarra ámóta samtaka tekur í sama streng.

Sveitarfélög og stjórnsýslueiningar ýmsar gjalda varhug við frumvarpinu og segja þetta ógna atvinnuvegum. Meðal þessara aðila er byggðaráð Húnaþings vestra, byggðarráð Dalabyggðar, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps, bæjarstjórn Akureyrarbæjar, Hrunamannahreppur, Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps og fleiri.

Gegnumgangandi stef í umsögnum þessara aðila er að verið sé að stofna ónæmi íslenskra búfjárstofna í hættu með þessari heimild og um leið sníða bændum þröngan stakk, þar sem þeir væru þá komnir í samkeppni við bændur sem lúta mun frjálslegri reglugerðum í heimalöndum sínum. Þá er flytjendum frumvarpsins víða borið á brýn að ganga erinda stórkaupmanna.

Kaupmenn ánægðir

Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi styðja eindregið að frumvarpsdrögin verði að lögum, segja þau í sameiginlegri umsögn. Þar segir að með frumvarpinu sé tryggt að matvæli njóti sömu stöðu og aðrar vörur, þ.e. að vera í frjálsu fræði innan EES.

Félag atvinnurekenda fagna sömuleiðis frumvarpsdrögunum og telja þau tímabær. Þeir segja það sömuleiðis hagsmuni neytenda að þessum hömlum á milliríkjaviðskiptum sé aflétt. Þá blása þeir svo að segja á áhyggjur af heilsufarslegum afleiðingum af þessu, en segja þó eðlilegar kröfur um viðbótartryggingar er kemur að salmonellu og kamfýlóbakter.

Loks fagna Samtök verslunar- og þjónustu frumvarpinu, sem þau kalla „löngu tímabær áform um afnám ólögmætra innflutningshafta.“ Þar vísa þeir til sömu laga og flytjendur frumvarpsins gera, nefnilega skuldbindingar Alþingis frá 2009 að afnema viss skilyrði á innflutningi á landbúnaðarafurðum innan EES.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert